139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrirspurnina. Eins og ég sagði eru hér farnar svolítið nýstárlegar leiðir við að meta skuldir þjóðarbúsins og greiðsluhæfi þess. Það er andstætt hefðbundnum reglum um greiðslujafnaðarstatistík að undanskilja ákveðna þætti og ákveðin fyrirtæki. Ákveðin rök hafa hins vegar verið færð fyrir því, ef orða má það þannig, að hægt sé að undanskilja Actavis í þessu samhengi. Ég hef einfaldlega ekki haft tíma til að leggjast yfir það og meta. Fjárlaganefnd fékk skýrsluna undir hádegi í gær og hún var ekki rædd efnislega í fjárlaganefnd. Þetta eru 42 blaðsíður af mjög flóknu efni, greiðslujafnaðarstatistík er mjög flókið fyrirbæri, og fyrir leikmenn er mjög erfitt að setja sig inn í þetta. Ég telst vera fagmaður í þessu efni og ég las skýrsluna í þaula í alla nótt og þarf einfaldlega að lesa hana aftur til að ná betur utan um þetta.

Það sem er kannski ámælisverðast er að fjárlaganefnd fjallar ekki efnislega um þessa skýrslu sem er þó svo mikilvæg og hefði þurft að vera komin fram fyrir löngu síðan.