139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er alveg sammála því að það er algerlega ótækt að almenningur axli skuldir sem eru til komnar vegna eigenda Landsbankans á meðan sakamálarannsókn er í gangi á þeim sömu eigendum. Í mínum heimi réttlætis hefði ég kosið að sjá það strax við lok árs 2008 að persónulegar eignir eigenda Landsbankans hefðu verið frystar og þær látnar ganga beinlínis til þessa máls.

Ég nefni það oft að Ísland er á allt öðru plani en nágrannalöndin hvað afgreiðslu svona mála varðar. Hér virðast menn einfaldlega geta haft frítt spil og skipt um kennitölur og fært eignir út og suður þrátt fyrir að vera undir sakamálarannsókn. Mér finnst það eiginlega alveg brjálað að búa í slíku samfélagi. Síðan þetta nýja þing tók við störfum hefur því ekki enn tekist (Forseti hringir.) að fylla upp í þær smugur sem þessir fjárglæframenn hafa og ég lýsi eftir löggjöf í þá veru.