139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:12]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar til stóð að samþykkja Icesave 1 og Icesave 2 var því haldið fram fullum fetum að ef það yrði ekki gert mundi skuldatryggingarálag þjóðarinnar rjúka upp úr öllu valdi, það yrði svo slæmt að við það yrði ekki búið.

Hvað gerðist þegar þjóðin neitaði Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu? Skuldatryggingarálagið batnaði. Og af hverju skyldi það vera? Jú, vegna þeirrar einföldu staðreyndar að þeir sem skulda minna eru einfaldlega betri skuldarar, þeir verða alltaf metnir betri skuldarar en hinir sem skulda mikið.

Hv. þm. Oddný Harðardóttir spurði mig hvort ég teldi ekki að einhver fyrirtæki hefðu ekki fengið fyrirgreiðslu eða að staðið hefði á lánum út af Icesave. Ég gekk á fund aðila hjá Samtökum atvinnulífsins og aðila hjá ASÍ til að fara yfir þau mál, ég gerði það bæði fyrir sjálfan mig og aðra.

Orkumálin voru augljóslega stöðvuð af öðrum hvötum en Icesave. Það má nefna að hæstv. umhverfisráðherra vildi ekki staðfesta skipulag varðandi neðri hluta Þjórsár. Málefni á Norðurlandi voru stopp vegna þess að þau voru sett í sameiginlegt mat. Einkafyrirtæki — mér var bent á að Icelandair gæti ekki fjármagnað sig. Hvað gerir maður þá? Maður hringir einfaldlega í forsvarsmenn þessara fyrirtækja og spyr: Er þetta svona, er þetta rétt? Nei, þetta er ekki rétt. Icelandair hefur fjármagnað sig og er í rauninni búið að gera upp öll sín mál þrátt fyrir að Icesave hafi verið óleyst.

Hvað með Marel? Marel fjármagnaði sig hjá hollenskum bönkum. Nú spyr ég hv. formann fjárlaganefndar: Hún verður að koma fram og segja hvaða fyrirtæki það eru sem hafa ekki fengið þessar lánafyrirgreiðslur.