139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:16]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðilar vinnumarkaðarins, Samtök atvinnulífsins og fulltrúar ASÍ, þeir sem voru þar í forsvari, höfðu svo rangt fyrir sér. Ég held að sagan sýni okkur það og staðreyndir málsins, þeir höfðu svo rangt fyrir sér. Allt átti að fara í kaldakol ef Icesave yrði ekki samþykkt.

Menn verða að átta sig á því að staða Íslands hefur ekki verið góð. En fullyrðingar um að þjóð sem tekur á sig drápsklyfjar sem hún verður marga áratugi að greiða muni bæta stöðu sína á einhvern hátt ganga einfaldlega ekki upp.

Ég vil þá líka fá rök, greiningar eða upplýsingar, um hvað hefur gerst, ekki bara einhverjar fullyrðingar út í loftið sem mér finnst því miður hafa einkennt málatilbúnað þeirra sem hafa viljað samþykkja Icesave.

Staðan er slæm og við skulum átta okkur á einu: Ef það er einhver sem hefur ekki viljað lána til Íslands er það fyrst og fremst af einni ástæðu. Hvað gerðu Íslendingar þegar bankarnir hrundu? Þeir settu á neyðarlög sem breyttu forgangsröðun í þrotabú, þeir breyttu með öðrum orðum reglunum. Ég er ekki viss um að sá sem lánar aðila sem síðan breytir reglunum sér í hag vilji lána þeim aðila aftur. En aðili sem kæmi fram og segði: Ég ætla ekki að borga skuldir sem ég tel mig ekki lagalega skuldbundinn til að gera, hann er í allt annarri stöðu. Það er einfaldlega hægt að meta það og reikna hver staða hans væri ef hann tæki á sig allar skuldbindingarnar.

Þetta er bara hinn eðlilegi þáttur málsins en mig langar (Forseti hringir.) að þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrirspurnina og ánægjulegt samstarf í fjárlaganefnd.