139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:21]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og þátt hans í þessu máli einnig sem hefur verið mikill og góður.

Það er einmitt rétt, og ég get tekið undir það sem hér kom fram, að ég tel engar líkur á því að Bretar og Hollendingar mundu vilja fara með þetta mál fyrir dómstóla. Ég tel engar líkur á því og það var ágætt að þingmaðurinn skyldi benda á það að ef sú staða kæmi upp að öll ríki bæru ábyrgð, það væri ríkisábyrgð á bak við alla einkabanka í Evrópu, væri staða þessara ríkja einfaldlega allt önnur og verri en hún er í dag.

Ég get upplýst það að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra kom á fund nefndarinnar vegna þess að til stendur að breyta reglum um innstæðutryggingarsjóðinn. Hann upplýsti að til stæði að leggja auknar álögur á bankana en þó þannig að einungis mundu safnast um 50–60 milljarðar í innstæðutryggingarsjóðinn, og það liggur fyrir að það mun ekki nægja ef hér verður annað bankahrun. Reyndar taldi hann eins og áður, hann hefur reyndar alltaf talið að það væru engar líkur á að hér yrði bankahrun en svo varð bankahrun, þannig að ég mundi ætla að við ættum að hafa allan varann á. Þetta þýðir með öðrum orðum að það verður alltaf ríkisábyrgð, ef þetta frumvarp verður að veruleika, á bak við stóru viðskiptabankana þrjá sem ég tel að sé algerlega ótæk niðurstaða. Við getum ekki haft fjármuni almennings á bak við banka sem verða áfram í eigu einhverra einstaklinga. Hæstv. fjármálaráðherra hefur reyndar ekki upplýst okkur hverjir þeir eru. Þetta eru einhverjir vogunarsjóðir, bandarískir vogunarsjóðir og einhverjir slíkir aðilar. Gott og vel. En mig langar til að þakka fyrir spurninguna og ég er sammála hv. þingmanni.