139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:27]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ef maður ætti að hafa sem fæst orð um þetta mál þá væru þau á þann veg að málið væri allt hið ömurlegasta. Það er alveg sama hvernig menn nálgast það efni sem hér er til umfjöllunar, hvað sem maður rekst á í þessu máli þá kemst maður oft að þeirri niðurstöðu að þetta sé á allan hátt hið ömurlegasta. Um það held ég að flestir geti verið sammála. Undan því komumst við hins vegar ekki neitt. Málið á sér rætur aftur til ársins 2004–2005. Stjórnvöld koma fyrst að málinu með beinum hætti í október 2008, Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið koma að málinu í nóvember 2008 og þannig gæti maður haldið áfram. Loks kemur til Alþingis í júní 2009 samkomulag sem íslensk stjórnvöld hafa gert við Breta og Hollendinga um lok á hinni svokölluðu Icesave-deilu. Forgöngu fyrir því hafði þáverandi minnihlutastjórn sem hafði tekið við völdum 1. febrúar 2009. Samkomulagið verður til undir hennar forræði. Þegar það kemur inn í þingið hafði samkomulagið þegar verið opinberað öllum öðrum með þeim orðum að hér væri í boði glæsileg niðurstaða. Það var langur vegur frá því. Þarna var um að ræða eina allsherjarskuldbindingu sem menn ætluðu íslenska ríkinu að gangast undir. Þegar það varð ljóst tók þingið málið í sínar hendur og tók yfir forræði þess.

Rætt hefur verið um afstöðu okkar sjálfstæðismanna sem birtist í nefndaráliti sem lagt var fram fyrir 3. umr., að um algera kúvendingu væri að ræða í afstöðu sjálfstæðismanna í þessu máli. Því vil ég mótmæla og bendi á forsögu málsins og aðkomu þingflokks Sjálfstæðisflokksins að því. Við höfum alla tíð talað fyrir pólitískri niðurstöðu. Við höfum gert okkur fullkomlega ljóst að eins og málið var vaxið yrði ekki leyst úr þessari deilu með öðrum hætti en með samningum milli ríkjanna þriggja. Við höfum alla tíð gert okkur grein fyrir því að það yrði aldrei útgjaldalaust af hálfu Íslendinga að ganga frá slíku samkomulagi.

Grundvallaratriðið við slíka samkomulagsgerð var að í samningum milli ríkjanna væri fullveldi okkar virt og allir samningsaðilar legðu sitt af mörkum til að ná samkomulagi. Það vill oft gleymast í umræðum um þetta mál, menn velta sér endalaust upp úr tölum sem mikil óvissa ríkir um, að í samkomulaginu sem hér liggur fyrir er búið að taka út gríðarlega íþyngjandi ákvæði sem fyrri samningar kváðu á um. Menn virtust ekki líta til þess að lagaleg atriði, sem lutu að fullveldi Íslands, úthlutunum og reglum um gjaldþrotaskipti, lögsaga, dómstólar og því um líkt, var í fyrri samningum en þetta er allt komið út núna. Við stöndum fastar á okkar rétti eins og við sjálfstæðismenn höfum lagt höfuðáherslu á í allri þessari vinnu.

Þegar þingið tók málið í sínar hendur um mitt ár 2009 voru settir fyrirvarar sem flestir þekkja til sem að málinu komu. Þannig gekk málið fram og var kynnt fyrir Bretum og Hollendingum. Þeir féllust ekki á þetta. Þá kom inn nýtt mál þar sem fyrirvararnir voru teknir út, þeir voru að engu orðnir og málið hafði verið afgreitt með sérstakri tilvísun frá forseta Íslands, þ.e. þegar hann áritaði það mál sem fyrirvararnir höfðu verið settir við. Þegar þeim var kippt út á seinni stigum og málið afgreitt eftir eina lengstu umræðu um einstakt þingmál í þingsögunni þá endaði það, eins og allir þekkja, á því að þetta fór í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars 2010. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar var mjög eindregin, 93% þeirra sem tóku afstöðu greiddu atkvæði gegn samningunum sem þarna lágu fyrir.

Í framhaldi af þessari niðurstöðu, ég held að það hafi raunar legið fyrir fyrir þjóðaratkvæði, þá voru uppi umræður og viðræður milli allra stjórnmálaflokkanna á Alþingi, hvernig bæri að taka á þessu máli. Það var raunar niðurstaðan að sett var á laggirnar, í samstarfi allra flokka, nefnd sem hafði það viðfangsefni að semja við Breta og Hollendinga og taka upp viðræður við þá að nýju. Samninganefndin var þá þannig skipuð að formaður hennar var valinn sameiginlega og stjórnarandstöðuflokkarnir fengu að auki fulltrúa sinn í samninganefndina. Allir stjórnmálaflokkar á Alþingi komu að samkomulaginu sem hér liggur fyrir.

Hver er staðan í þessu ömurlega máli? Það þarf að taka ákvörðun um það hvort við ætlum að gera þetta samkomulag eða halda málinu áfram í ágreiningi. Ég gæti farið mikinn um innihald samkomulagsins eins og það liggur fyrir. Um það er vissulega mikil óvissa en það stendur þó skrifað á blað. Ef við tökum Memorandum of Understanding, minnisblað sem lagt var fram haustið 2008, sem tilraun til samkomulags, er þetta fjórða samkomulagið sem gert er í þessu máli eða reynt er að gera við Breta og Hollendinga. Það sem skilur hins vegar milli þessa samkomulags og fyrri samkomulaga sem gerð hafa verið er það að að þessu samkomulagi eiga allir stjórnmálaflokkar á Alþingi aðild, þeir eiga allir hlut í þessu samkomulagi. Það er mat okkar sjálfstæðismanna að fullreynt sé í þessum efnum að semja frekar við Hollendinga. Við getum öll sett fram óskir og hugmyndir um breytingar á samkomulaginu sem liggur fyrir.

Mitt mat er að í samningum við þessar þjóðir verði ekki náð lengra. Þá er hinn kosturinn uppi að halda ágreiningi til streitu. Við höfum tekist á um hvað það þýðir. Við getum endalaust haft uppi hugmyndir í þeim efnum. Það kom fram í máli hv. þm. Höskuldar Þórs Þórhallssonar áðan að fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefnd hefðu óskað eftir ítarlegra lögfræðiáliti eða greiningu á hugsanlegri niðurstöðu á því hvernig dómsmál kynni að fara þá hefði ekki verið hægt að fá mikla aðstoð eða hjálp frá sjálfstæðismönnum við þá ósk stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefnd. Það kann vel að vera. Ég ætla hins vegar að minna hv. þingmann á að það var Sjálfstæðisflokkurinn sem vann þá tillögu út frá tillögum umsagnaraðila og lagði það skjal fram í fjárlaganefnd sem unnið hefur verið að á þessu stigi. Engin breytingartillaga eða viðbótartillaga við það skjal kom frá einum einasta fulltrúa í fjárlaganefnd fyrr en núna á síðustu metrunum. Þá var kallað eftir frekari upplýsingum. Mig minnir þó í ljósi þeirrar umræðu sem við áttum í fjárlaganefnd að í dag séum við komin fram yfir þann lokadag sem fulltrúar bæði Framsóknarflokks og Hreyfingarinnar buðu fram til að taka málið úr nefnd þegar menn þjörkuðu um það hvort byrja ætti að vinna þetta tveimur eða fjórum dögum fyrr en ætlað var. Mér finnst við stundum hlaupa úr einum stað í annan til að halda umræðunni áfram. Í mínum huga er komið að ákvörðun í þeim efnum sem lýtur að samkomulaginu. Mat okkar sjálfstæðismanna í nefndinni er að annað samkomulag sé ekki í augsýn, a.m.k. ekki á næstu árum.

Það er fullkomlega eðlilegt að menn spyrji á hvaða grunni fjárlaganefndarmenn byggi álit sitt þegar þeir fjalla um þessi mál. Í fjárlaganefnd er ósköp venjulegt fólk sem leggur sig fram um að vinna þá vinnu sem því er falið. Í vinnu okkar í svona flóknu máli styðjumst við að sjálfsögðu við álit sérfræðinga, hagfræðinga og lögfræðinga, á hinum ýmsu sviðum, og við komum okkur oftast nær saman um hverjir þeir eru og hvert verkefni þeirra er. Svo hefur einnig verið í þessu máli. Ég sé og heyri að hv. þingmaður er ekki alveg með það á hreinu hvaða samkomulag eða hvaða skjal verið er að ræða um. Svo ég eyði þeim vafa úr huga þingmannsins þá lagði ég það skjal fram á fundi fjárlaganefndar 15. desember, ef ég man rétt. Þar var listað upp hvaða verkefni ég vildi sjá unnin og hverjir ynnu þau. Þetta eiga allir fjárlaganefndarmenn sem hafa kynnt sér gögn málsins að hafa fulla vitneskju um, þetta er ekkert leyndarmál. Þegar þetta var að lokum afgreitt frá fjárlaganefnd var gert ráð fyrir því að fjórir lögfræðingar ynnu tiltekna greiningu á spurningum sem settar voru fram í þeirri samþykkt sem nefndin gerði. Ég vona að þetta sé skýrt, hv. þingmaður. (Gripið fram í: Þetta er kýrskýrt.) Akkúrat.

Flestir sérfræðingarnir sem unnu fyrir fjárlaganefnd, ef við tökum fjárhagslegu skuldbindingarnar af þessu nýja samkomulagi, voru sammála um að þær gætu verið frá 0 kr. upp í allverulegar fjárhæðir eða 230 milljarða, ef ég man fjórðu sviðsmyndina frá GAMMA rétt. Ég man ekki eftir því að neinn þeirra sérfræðinga sem kynntu okkur umsögn sína mæti það þannig að ríkissjóður mundi ekki ráða við þær fjárhagslegu skuldbindingar sem af þessu leiddu. Ég minnist þess ekki. Ef við tökum lögfræðilega þáttinn þá var það samdóma álit þeirra lögspekinga sem við leituðum til að gerðar hefðu verið verulegar breytingar til að styrkja stöðu Íslands. Hins vegar treysti enginn þeirra sér til að fullyrða neitt um niðurstöðu hugsanlegra dómsmála. Ég hef sagt að í þessum málum verður ekki bæði sleppt og haldið. Við þurfum að taka ákvörðun sem lýtur að samkomulaginu hvort við ætlum að staðfesta það eða synja því. Við getum örugglega haldið áfram að greina það betur og betur út í hið endalausa. Mat þeirra sem komið hafa að þessu er þetta sem ég hef verið að lýsa. Ef ég tek lögfræðilega þáttinn í þessu þá voru nokkrar lykilspurningar sem þessi lögfræðihópur fékk til umfjöllunar. Það höfðu allir tækifæri til að tilnefna fulltrúa sinn, koma með ný nöfn eða sérfræðinga til að skoða þetta og þetta varð niðurstaðan. Álitsgerð lögfræðingahópsins er samin af Stefáni Má Stefánssyni prófessor, Benedikt Bogasyni, héraðsdómara og dósent, Dóru Guðmundsdóttur aðjúnkt og Stefáni Geir Þórissyni hæstaréttarlögmanni. Að allra mati, forseti, er þetta hæft og gagnmerkt fólk sem hefur lagt mikla vinnu í athuganir sínar. Spurningarnar sem þau fjölluðu um voru m.a., svo ég nefni það úr þeirri álitsgerð sem hér hefur öðru hverju verið nefnd, hvað tæki við ef samkomulag um Icesave yrði ekki staðfest. Hvert er mat þeirra á dómstólaleiðinni, kostir og gallar? Þannig gæti ég haldið áfram, áhættu vegna neyðarlaga o.s.frv. Í megindráttum mætti draga fram svör þeirra varðandi spurninguna um hvað tæki við ef samkomulag um Icesave yrði ekki staðfest. Gefnir eru þrír möguleikar í því.

Í fyrsta lagi telur þetta fólk að mögulegt sé að Bretar og Hollendingar hefji málsókn og haldi því m.a. fram að ríkisstjórn eða ráðherrar hafi gefið bindandi yfirlýsingar um að greiða fjárhæðir sem þeir innleystu. Sú málsókn yrði þá byggð á því að íslenska ríkið hefði bakað sér skaðabótaskyldu vegna yfirlýsinga ráðherra og að ríkið hefði ekki fullnægt skuldbindingum sínum samkvæmt tilskipun um innlánstryggingarkerfið og mismunað innstæðueigendum á reikningum Landsbanka Íslands í Bretlandi og Hollandi.

Í öðru lagi telja þau líklegt að ESA fari af stað með samningsbrotamál gegn Íslandi út af Icesave-deilunni. Stofnunin hefur þegar úrskurðað í þeim efnum og gert grein fyrir viðhorfum sínum.

Í þriðja lagi segja þessir lögspekingar að líklegt sé að Bretar og Hollendingar, og jafnvel aðrar þjóðir, haldi uppi svipuðu andófi og hingað til gegn Íslandi og íslenskum hagsmunum ef samkomulag verður ekki staðfest. Ég er ekki dómbær á það frekar en þetta ágæta fólk hvað gerist ef dómstólaleiðin verður farin. Það er mat hvers og eins hvernig hann kýs að túlka þá spurningu og það viðfangsefni. Þau eru hins vegar sammála þessi fjögur og ég ætla, með leyfi forseta, að vitna beint í álitsgerð þeirra:

„Við höfum farið yfir gögn málsins að því marki sem þau eru aðgengileg, en skiptar skoðanir eru meðal okkar um hver yrði líkleg dómsniðurstaða í slíku máli. Sum okkar telja að talsverðar líkur séu á að slíkt mál vinnist en aðrir telja að þær líkur séu að sama skapi litlar. Við öll teljum þó að ekki verði útilokað að Íslandi verði dæmt áfall [eins og kallað er] í slíku máli.“

Lykilatriðið í þessum efnum, sem lýtur að dómstólaleiðinni, og nú legg ég minn skilning í afstöðu þessara sérfræðinga, er þá að þetta mun ekki endilega þýða að dómstóll komist að lagalega réttri niðurstöðu. Ég kýs að túlka það sem ég hef lesið og heyrt þannig. Það mun velta á málatilbúnaði, sönnunarfærslu og ekki síst dómurum og dómstólum. Þeir lögfræðingar sem ég hef heyrt í segja að ef málið heyrði undir Alþjóðadómstólinn væru líkurnar á jákvæðri niðurstöðu fyrir Ísland til muna meiri en ef málið færi fyrir EFTA-dómstólinn sem flestir telja að málið þurfi að fara fyrir. Ástæðan fyrir þessu er sú að sá dómstóll er hluti af regluverki Evrópusambandsins. Það er alveg ljóst, og hefur raunar komið fram í umræðum, að Evrópusambandið hefur mikilla hagsmuna að gæta af því að dómurinn falli Íslandi í óhag. Við þekkjum afstöðu Evrópusambandsríkjanna og svokallaðra vinaþjóða okkar á Norðurlöndunum í þessum efnum. Afstaða þessara þjóða hefur legið fyrir frá október 2008.

Í mínum huga er því alveg ljóst að báðar leiðir, eins og þær liggja fyrir, kalla á veruleg útgjöld fyrir ríkissjóð, hvernig svo sem við mælum þau. Munurinn á samkomulaginu og því að semja ekki liggur fyrst og fremst í því að við erum með samkomulag á rituðu máli fyrir framan okkur. Mér finnst gríðarleg óvissa í mati þeirra sérfræðinga sem við höfum fengið til liðs við okkur, til að reyna að hjálpa okkur að komast að niðurstöðu, á því hvað dómstólaleiðin þýðir.

Hér hefur verið spurt um það hvað gerist ef málið fer ekki fyrir dómstóla. Ég er ekki í stakk búinn og ekki í neinum færum til að svara því. Ég veit það eitt að Bretar og Hollendingar hafa reynt að innheimta þessa skuld með einhverjum hætti. Ég sé ekki að þeir séu hættir að knýja á um að Íslendingar greiði þetta. Ef við horfum til þess hvernig ríki leysa ágreining er venjan, eftir því sem fróðari menn segja mér, ekki sú að það sé gert fyrir dómstólum. Það eru tvær leiðir, annars vegar að semja um lausn eða að halda úti ágreiningi, þá er það venjulega sá sterki og stóri sem ræður þar niðurstöðu mála. Þannig liggur þetta. Ég er ekki í neinum vafa um að þetta er öllum sem að þessu máli koma erfið og mjög þvælin ákvörðun. Umræðan hér í þingsölum um þetta ömurlega mál ber því vitni. Við stöndum hins vegar í þeim sporum núna að þurfa að taka afstöðu til samkomulags sem gert hefur verið í samstarfi allra stjórnmálaflokka á Alþingi. Niðurstaða þingflokks Sjálfstæðisflokksins var sú að minni óvissa væri við það að ganga til samninga á þeim grunni en sú óvissa sem af því leiddi að samkomulagið yrði ekki staðfest. Því varð það niðurstaða meiri hluta þingflokks Sjálfstæðisflokksins og fulltrúa okkar í fjárlaganefnd að gera tillögu um að samkomulagið sem hér lægi fyrir yrði staðfest.

Virðulegi forseti. Þar sem ég geri ráð fyrir að þetta sé með síðustu ræðunum um Icesave vil ég sömuleiðis, í ljósi þeirra gríðarlegu þakkarorða sem boðið var upp á áðan, þakka fjárlaganefnd fyrir ágætt samstarf um þetta ömurlega mál. Ég vænti þess að við munum áfram eiga ágætissamstarf um þau mál og úrlausnarefni sem okkur hafa verið falin.