139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki fékk ég nú þau svör sem ég kallaði eftir en samt sem áður var þetta athyglisvert svar hjá hv. þingmanni. Það sjá það náttúrlega allir að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn nálgast þetta mál með gjörólíkum hætti. Hér stöndum við þingmenn Framsóknarflokksins og bendum á að þetta samkomulag, sem sjálfstæðismenn virðast vera mjög hrifnir af, er algjörlega óásættanlegt. Það er allt of mikil áhætta í því fólgin og við erum kannski ósammála um hvort fullreynt sé.

Annað samkomulag er ekki í augsýn, það kom m.a. fram í ræðu hv. þingmanns áðan. Hvorugur okkar sat nú reyndar þessa samningafundi en ég velti því fyrir mér hvort ekki megi færa fyrir því rök að Bretar skuldi Íslendingum gríðarlegar fjárhæðir, tugi ef ekki hundruð milljarða, vegna þess tjóns sem þeir ollu okkur með hryðjuverkalögunum. Það er náttúrlega merkilegt að Bretar skuli hafa breytt um stefnu og ætli nú að semja við hryðjuverkamenn því þeir settu okkur að sjálfsögðu í þann flokk. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann viti til þess að reynt hafi verið að tala fyrir einhvers konar skuldajöfnun við Breta í samningaferlinu, þ.e. hvort þeir milljarðar sem Bretar skulda okkur vegna þess tjóns sem þeir ollu hafi verið nefndir við bresku samninganefndina. Ég kannast ekki við það, sem er náttúrlega ámælisvert fyrir ríkisstjórnina sem stýrði samninganefndinni og samninganefndina í raun.

Annað sem mig langar að spyrja hv. þingmann um að lokum er þjóðaratkvæðagreiðsla sem mikið hefur verið rædd. Nú hafa hátt í 24 þús. manns skrifað undir áskorun um að þjóðin fái að greiða atkvæði um málið. Hver er afstaða þingmannsins til slíks?