139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:57]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég bið hv. þingmann afsökunar á því að hafa ekki svarað spurningu hans í fyrra andsvari að öllu leyti. Staðan er einfaldlega þannig að okkar mati að við teljum að gengi verði að halda allbærilega stöðugu þar til við komum til loka við að greiða þær skuldbindingar sem kunna að falla á okkur samkvæmt samkomulaginu. Ég tel að við munum búa við höft í lengri tíma en sumir hverjir ætla.

Varðandi hvernig samninganefndin hefur staðið sig og hvaða einstöku kröfur hún hefur gert þá þekki ég það ekki í þaula. Málið var unnið á forræði forustu stjórnarandstöðuflokkanna, afskipti þeirra af því voru í gegnum fulltrúa okkar í samninganefndinni. Ég veit það þó eitt að allir þeir sem að þessu máli komu af hálfu Íslands, í það minnsta sem lýtur að samninganefndarmönnum okkar, börðust mjög hatrammlega fyrir öllum hagsmunum Íslendinga í viðræðunum. Það held ég að sé ekkert hægt að draga af því ágæta fólki.

Varðandi afstöðu mína til þjóðaratkvæðagreiðslu hefur hún legið fyrir í langan tíma. Ég var borinn þeim sökum að hafa ekki viljað styðja tillögu sem hv. þm. Þór Saari bar fram í fjárlaganefnd í gær. Sú tillaga var borin upp og felld af stjórnarmeirihlutanum á fundinum. Í kjölfarið hef ég upplýst og gerði það raunar á þeim sama fundi að afstaða mín til þjóðaratkvæðagreiðslunnar og tillagna sem þar koma fram kæmu fram í þingsal. Það mun ég gera. Tillögur koma til afgreiðslu á morgun og ég hef verið mjög hallur undir þær og lýst opinberlega skoðun minni á þessu máli. Ég veit að hv. þingmanni er kunnugt um hver hún er.