139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[19:03]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum sammála um það að vera engir sérstakir áhangendur þessarar ríkisstjórnar sem hefur haldið svo óhönduglega á málum upp á síðkastið.

Mig langar þó til að taka fram að það er rétt að hv. þm. Pétur H. Blöndal kom að gerð hinna efnahagslegu fyrirvara. Þar áttu reyndar líka þátt þingmenn Framsóknarflokksins auk þess sem leitað var til fjölmargra lögfræðinga um að setja hina lagalegu fyrirvara. Það sem gerði hins vegar að verkum að ég dró mig út var að verið að eyða þessum fyrirvörum og gera þá marklausa eins og síðar kom á daginn.

Mig langaði til að vekja athygli á þeim orðum hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar að ef málið yrði ekki samþykkt á Alþingi og yrði að deilu milli Íslendinga og Breta og Hollendinga — ef ég tók rétt eftir orðaði þingmaðurinn það svo að sá sterki og stóri kæmi þá til með að hafa betur.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Er þetta nýja viðhorfið í Sjálfstæðisflokknum að þar sem við eigum við stærri og fjölmennari þjóðir að etja eigum við einfaldlega að gefa eftir? Hvað með makríldeiluna sem núna ber svo hátt, eigum við að gefa eftir þar á þeim forsendum að hinir sterku og stóru, Evrópusambandið allt, komi til með að hafa betur? Erum við ekki sjálfstæð þjóð sem á að haga málum sínum sjálf? Er þingmaðurinn ekki sammála mér um það? Eigum við ekki að krefjast þess hvar sem er að við verðum ekki neydd á hnén og látin taka á okkur drápsklyfjar skulda þegar óvíst er hvort við eigum að borga þær yfir höfuð? Ég trúi ekki öðru en að þingmaðurinn sé sammála mér um þessi atriði.