139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[19:05]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Jú, mikil ósköp, ég er sammála hv. þingmanni um að við eigum ekki að krjúpa á knén. Við ljúkum málum í þessum deilum með samningum, sama hvort það eru landhelgismál eða samningar um deilistofna. Ég geri fullkomlega ráð fyrir því að við munum ljúka deilum okkar við erlend ríki um makrílstofninn með samningum. Ég ætla svo sannarlega að vona að svo verði.

Þetta snýst um að vinna sig niður á samkomulag í sátt við aðrar þjóðir, á því byggir mín afstaða. Ég er ekki að mæla því bót að menn knékrjúpi fyrir þeim stóra og sterka, ég var að benda á það áðan, og bið hv. þingmann að fara rétt með, að í samskiptum þjóða hafa ágreiningsmál eins og þetta verið leyst með samkomulagi eða ágreiningi eða deilum eða stríði. Það er þannig. Það eru bara þessar tvær leiðir. Ég held að það sé algjör undantekning að ríki fari í mál hvert við annað.

Varðandi það sem hér hefur verið nefnt að málið hafi verið rifið úr nefnd og sjálfstæðismenn ekki bakkað stjórnarandstöðuna upp í þeim efnum, þá minni ég enn og aftur á þetta sem oftar en ekki hefur komið fram í málinu að gengið hefur verið frá samkomulagi í fjárlaganefnd um ákveðna verkþætti. Ég er ekki að mælast til þess að við getum ekki endalaust aflað okkur upplýsinga en í þessu máli hefur því ekki verið svo háttað. Ég minni á að fulltrúar Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar buðu, þegar þráttað var um hvenær ætti að byrja að vinna þetta mál, ákveðna dagsetningu á því hvenær ætti að taka málið úr nefndinni. Þá eiga þeir hinir sömu að standa við það boð vegna þess að ekki hefur komið fram nein önnur tillaga (Gripið fram í.) um það hverjir hefðu átt að vinna t.d. það lögfræðiálit sem ég setti upp hér. (Gripið fram í: Þú hefðir átt að …) Það kann vel að vera en í þessum efnum er ágreiningur en það má alltaf biðja um (Forseti hringir.) meiri og meiri upplýsingar.