139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

afbrigði um dagskrármál.

[19:32]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fyrr í umræðunni í dag komu fram sjónarmið um að breytingartillaga, sem flutt er af hv. þm. Þór Saari og fleirum, um þjóðaratkvæðagreiðslu kunni að fela í sér ákveðna stjórnskipulega annmarka. Þau sjónarmið komu fram hjá hv. þingmönnum Árna Þór Sigurðssyni og Þórunni Sveinbjarnardóttur. Sú tillaga sem liggur fyrir og greidd eru atkvæði um, frá hv. þm. Pétri H. Blöndal,

(Forseti (RR): Afbrigðin.)

… afbrigðin, afsakið, eru í eðli sínu sama tillaga. Þeim er ætlað að ná fram sömu markmiðum og þeirri breytingartillögu sem Þór Saari hefur mælt fyrir en þau eru öðruvísi útfærð og á þeim ættu ekki að vera neinir vankantar sem leitt gætu til þess að upp kæmu vandamál varðandi framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu verði afbrigðin samþykkt. Ég tel í ljósi þess hvernig til hefur tekist við atkvæðagreiðslur í (Forseti hringir.) landinu upp á síðkastið að það sé betra að menn hafi vaðið fyrir neðan sig og löggjöf um þjóðaratkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) sé í lagi.