139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

lengd þingfundar.

[19:41]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé borin von að þessum stjórnarmeirihluta takist að gera Alþingi að fjölskylduvænum vinnustað. Ég tel reyndar að það sé borin von að honum takist nokkur skapaður hlutur ef út í það er farið. Honum hefur ekki tekist neitt sérstaklega vel til með ýmis mál upp á síðkastið. Ég held samt að þetta sé sjónarmið sem við ættum að halda í heiðri, sérstaklega í ljósi þess að hér eru ungir þingmenn sem eiga börn og það er ekki góður bragur á því að þingfundur standi langt fram yfir miðnætti.

Mig langar að spyrja hæstv. forseta: Er búið að ákveða að greiða atkvæði um Icesave á morgun? Ég hef þær upplýsingar að það liggi ekki fyrir hvenær atkvæðagreiðslan fer fram og þess vegna hlýt ég að spyrja: Af hverju öndum við ekki rólega og leyfum þeim sem vilja tjá sig um þetta mál að tala? Ég sakna þess t.d. að heyra skoðanir hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar, sessunautar míns í fjárlaganefnd, og annarra sem eiga þar sæti. Ég bíð eftir (Forseti hringir.) að fólk setji sig á mælendaskrá og úttali sig um málið.