139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér sýnist á öllu að við verðum hérna í nótt. Það skýrist kannski þegar líður á nóttina hvað hv. þingmaður ætlar að gera.

Það kom fram í ræðu hv. þingmanns áðan að deilt væri um hvort ríkið bæri ábyrgð á innstæðunum og kerfinu. Manni finnst einhvern veginn að sú deila hafi fyrst og fremst farið fram hér í þingsal og í landinu. Ég veit ekki betur en forsvarsmenn og yfirmenn framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hafi lýst því yfir að engin ríkisábyrgð sé þegar svona lagað gerist. Bankastjóri og yfirmaður evrópska seðlabankans, fyrrverandi yfirmaður franska seðlabankans, lýsti því yfir að þetta ætti ekki við í kerfishruni. Það verður ekki litið öðruvísi en svo á að a.m.k. þessir ábyrgðarfullu menn innan Evrópusambandsins hafi kveðið upp þann úrskurð að ekki sé ríkisábyrgð á innstæðunum. Við hljótum því að vilja taka á okkur, eða þeir sem það vilja, þessar byrðar af öðrum ástæðum. Hvaða ástæður eru það? Er það vegna þess að Evrópuríkin, Evrópusambandsríkin Bretland og Holland, eru augljóslega að kúga Íslendinga til að taka á sig þessar byrðar og leggja þær á börnin okkar, í framtíðinni? Mér reiknast svo til að yngstu börnin mín verði á fimmtugsaldri þegar þetta ólukkans mál verður úr sögunni, sjálfur verð ég nærri áttræður. En málið er ekkert að fara frá okkur eins og hv. þingmaður benti réttilega á, frú forseti.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það sé rétt mat hjá mér — þetta er fyrsta spurningin, ég er með nokkrar aðrar — að Icesave, verði það samþykkt, muni fylgja íslenskum fjárlögum næstu árin, jafnvel áratugina, (Forseti hringir.) vegna þeirra skuldbindinga sem í því felast?