139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:28]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég hef aðeins spáð í þessar tillögur. Gallinn er náttúrlega sá að þetta eru slíkar upphæðir að það er mjög erfitt að standa straum af þeim með eingöngu skattlagningu á bankana fyrir utan það að á endanum lendir þetta líklega allt á almenningi. Ef bankarnir eru krafðir um þetta í aukinni gjaldtöku birtist það líkast til í auknum vaxtamun sem bitnar á almenningi. Það birtist í því að það er erfiðara fyrir bankana að ráðast í þær afskriftir sem nauðsynlegar eru og leiðrétta lán eins og hefði að sjálfsögðu löngu átt að vera búið að gera. Þegar öllu er á botninn hvolft lendir þetta alltaf á íslenskum almenningi. Ég held að við verðum því að skoða þetta í því ljósi sem hv. þingmaður kom inn á í fyrra andsvari, þ.e. að hugsa þetta út frá því að kostnaðurinn muni alltaf lenda á venjulegu fólki, á heilbrigðisþjónustunni, í löggæslunni o.s.frv. Ef menn segja: Já, en það þarf ekkert endilega að lenda á heilbrigðisþjónustunni, það þarf ekkert endilega að lenda á löggæslunni eða menntun, getum við ekki látið niðurskurðinn lenda annars staðar? Einfalda svarið við því er að við sjáum hvernig þetta hefur verið síðustu mánuðina í þessum erfiða niðurskurði. Ríkisstjórnin hefur ekki treyst sér til að finna staði annars staðar til að skera niður heldur en ekki hvað síst í heilbrigðiskerfinu, í velferðarkerfinu og t.d. í löggæslu, í þessum grunnstoðum samfélagsins. Þessi mikla upphæð mun alltaf hafa áhrif á líf venjulegra Íslendinga og því miður er ég dálítið hræddur um að hún geti haft áhrif býsna lengi.