139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:30]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka fjárlaganefnd fyrir góða vinnu að þessu máli. Það er okkur auðvitað mikilvægt nú þegar við komum að lokaumræðu um þetta frumvarp að sameinast um að ljúka þessu máli. Ljóst er að það er umtalsverð áhætta því samfara að freista þess ekki að ljúka málinu í sátt. Það er þess vegna sem allir stjórnmálaflokkar hafa komið að samningavinnunni síðasta árið. Það er þess vegna sem forustumenn flokkanna hafa viðurkennt mikilvægi þess að ljúka málinu með sátt allt síðasta ár. Það er óumdeilt að hér er um ræða samning sem felur í sér þá bestu niðurstöðu sem hægt er að ná með samningum að áliti hinna færustu sérfræðinga sem fengnir voru til liðs við að leiða þetta verk.

Þegar þessi forsaga er höfð í huga tel ég öll rök hníga að því að við samþykkjum frumvarpið, enda er ljóst að það er talsverð áhætta því samfara að gera það ekki, eins og glöggt kemur fram í mati lögfræðinganna fjögurra sem lögðu mat á hætturnar samfara því að málið gengi dómstólaleiðina. Það er því rétt sem oft hefur verið sagt í þessu máli að samningur er skynsamlegasta leiðin.

Virðulegi forseti. Milli 2. og 3. umr. var málið kallað á ný til fjárlaganefndar og þá m.a. kannaðir möguleikar á því hvort hægt væri að ætla fjármálastofnunum að fjármagna endurgreiðslur sem kynnu að falla á ríkissjóð vegna Icesave-samkomulagsins með sama hætti og gert er ráð fyrir að þær standi straum af iðgreiðslum í nýjan Tryggingarsjóð innstæðueigenda. Því er til að svara að að mínu viti er ekki skynsamlegt að blanda saman innstæðutryggingarkerfi, sem er mikilvægt réttindamál fyrir neytendur til að tryggja almenning fyrir ófyrirséðu falli lánastofnana, og endurgreiðslu þess kostnaðar sem nú er fallinn á hinn gamla tryggingarsjóð og til stendur að ljúka með þeim samningi sem hér um ræðir.

Sá kostnaður sem hér mun falla til er með þeim hætti að ekki eru heldur efnisleg rök fyrir því að nýjar fjármálastofnanir sem stofnaðar hafa verið nú standi undir honum, enda um að ræða nýja banka sem settir hafa verið á fót í tveimur tilvikum af nýjum eigendum og í einu tilviki af ríkinu. Þeir eigendur bera ekki skuldbindingar eða ábyrgð á aðgerðum stjórnenda Landsbankans fyrir hrun þess banka. (Gripið fram í.) Hins vegar er rétt að árétta að löggjafinn hefur skattlagningarvald og ef það er mat löggjafans að rétt sé og skynsamlegt að leggja frekari skatta á fjármálastofnanir en þegar hefur verið gert er það auðvitað á valdi löggjafans sem hefur fjárveitingavaldið og skattlagningarvaldið.

Almennt séð efast ég hins vegar um skynsemi þess að ganga mjög langt í skattlagningu á fjármálastofnanir á þessum tíma. Við erum nýbúin að endurreisa bankana. Við ætlum þeim að skila því svigrúmi sem þeir hafa í efnahagsreikningum sínum til heimila og fyrirtækja í skuldavanda og við munum ganga ríkt eftir að svo verði gert. Það er líka mikilvægt að við hefjum nú þegar söfnun í nýjan innstæðutryggingarsjóð til að auka tiltrú á íslenskt fjármálakerfi og vinna gegn hættu á fjárflæði úr landi þegar gjaldeyrishöftum er aflétt.

Virðulegi forseti. Ég tel því öll efnisleg rök til þess að afgreiða þetta mál með þeim hætti sem það er nú lagt fyrir af meiri hluta fjárlaganefndar og legg á það áherslu að það er löggjafans á síðari stigum að meta með hvaða hætti hann kýs að leggja gjöld á fjármálastofnanir í samræmi við almenn sjónarmið sem liggja að baki skattlagningu.