139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:41]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætlega yfir þetta farið í áliti lögfræðinganna fjögurra sem lagt var fyrir fjárlaganefnd. Aðrir lögfræðingar hafa freistað þess að leggja á þetta mat. Heildarfjárhæð umfram innstæðutryggingar er 1.200 milljarðar. Ekki er útilokað að kröfu gæti verið beint að okkur til greiðslu þeirrar fjárhæðar í heild, um líkur á hvernig mál falli nákvæmlega er alltaf erfitt að spá. En það er hin opna áhætta, það er tjónið sem frekari tafir á málinu valda sem veldur því líka að það er mjög mikilvægt að ljúka því í sátt.

Hv. þingmaður er mikill áhugamaður um að við náum efnahagslífinu upp úr hjólförum stöðnunar. Það er algerlega ljóst að meðan við fáum ekki lánafyrirgreiðslu til stórverkefna komum við efnahagslífinu ekki upp úr hjólförum stöðnunar. Það skiptir því miklu máli fyrir íslenskt efnahagslíf að ljúka þessari óvissu sem allra fyrst.