139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef við höfum efni á því að borga Icesave hljótum við að hafa efni á þeim framkvæmdum sem hæstv. ráðherra er mjög annt um og mér er að sjálfsögðu líka annt um. Það hlýtur að segja sig sjálft. Ég veit ekki betur en að íslensk fyrirtæki hafi verið að fjármagna sig með ágætum hætti erlendis og hefur það verið rakið í þessum ræðustól. Það er að vísu rétt að Landsvirkjun eða einhver orkufyrirtæki hafa lýst því yfir að þau séu í vanda vegna þess að Evrópski fjárfestingarbankinn eða Norræni fjárfestingarbankinn séu að þvælast fyrir í því. Það er vitanlega áhyggjuefni því að það eru pólitískar stofnanir Evrópusambandslanda m.a. sem eru þá að beita hörku gagnvart Íslandi í gegnum þessar stofnanir.

Ef ég hef skilið hæstv. ráðherra rétt, sem er ekki reyndar alveg víst, virðist áhættan af því að fara með þennan samning fyrir dómstóla jafnvel ívið minni en að ætla að greiða samninginn sem var fyrst borinn upp, fyrsta Icesave-samninginn. (Forseti hringir.) Ég fæ ekki séð að áhættan af því að fara í dómsmál sé svo mikil fyrir utan það, frú forseti, að að sjálfsögðu (Forseti hringir.) eigum við að standa á rétti okkar en ekki láta kúga (Forseti hringir.) okkur til að taka á okkur greiðslur sem okkur ekki ber.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmann um að virða tímamörk.)