139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:46]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið en það er erfitt að svara svo efnisríku andsvari í einnar mínútu svari. (Gripið fram í.) Ég skal reyna að komast yfir það sem ég get.

Ég held að innstæðutryggingarkerfin séu til þess fallin að veita neytendavernd, já. Á þeim eru hins vegar auðvitað óhjákvæmilegir gallar vegna þess að þau kunna að veita falskt öryggi og líka að draga úr árvekni neytenda á markaði.

Það er engu að síður mikilvægt að innleiða innstæðutryggingarkerfi og með þeim breytingum sem ráðuneytið hefur núna í kjölfar samráðs við hagsmunaaðila lagt til við viðskiptanefnd að verði gerðar á frumvarpinu tel ég að við séum að koma á mjög góðu og skynsamlegu innstæðutryggingarkerfi. Sá vandi sem leiddi af innstæðutryggingarkerfinu vegna Icesave er vandi sem við getum að hluta til leyst með því að hemja banka í að opna útibú erlendis og beina þeim frekar inn í dótturfélög ef þeir ætla að hasla sér völl á erlendri grundu. Það er mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að ætla þeim ekki að stofna til skuldbindinga sem séu umfram það sem viðbúnaður samfélagsins standi við. Ég skal reyna að ljúka við svör í seinna andsvarinu.