139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:50]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að blanda sér í umræðuna. Ég er með tvær stuttar spurningar til ráðherrans. Mér skilst að í gær hafi komið á fund fjárlaganefndar fulltrúar úr Seðlabanka Íslands, farið yfir skuldastöðu ríkissjóðs og lagt þar fram einhvers konar bráðabirgðaskýrslu um það mál. Jafnframt skilst mér að þessi skýrsla verði ekki gerð opinber og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort honum sé kunnugt um þetta og hvers vegna ekki megi birta þessar upplýsingar.

Þá langar mig að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvort hann átti sig á því með hvaða hætti eigi að greiða afborgun skuldbindingarinnar um Icesave núna í sumar, júní- eða júlígreiðsluna. Hvaðan eiga þeir fjármunir að koma? Jafnframt langar mig að beina örstuttri fyrirspurn til hæstv. ráðherra í lokin og vona að hann nái að nýta tíma sinn vel: Veit hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hvers vegna ekki var heimiluð lengd umræða um þetta mál við 3. umr.?