139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:54]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Nú ræðum við í þriðja sinn 3. umr. um Icesave, númer 3 að þessu sinni. Fjölmargir hafa stigið í þennan ræðustól og fjallað um þetta mál og það er ágætt að menn komi hingað og geri grein fyrir afstöðu sinni. Reyndar hafa fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna í þrígang komið hingað og varið þá samninga sem ríkisstjórnin hefur gert. Vissulega er vel að sá samningur sem nú liggur fyrir þinginu er margfalt betri en þeir fyrri og margfalt betri en hinn svokallaði Svavarssamningur sem lagður var inn í þingið fyrir allnokkru. Engu að síður verðum við öll að gera okkur grein fyrir því að sá samningur sem hér liggur á borðinu er ekki góður eins og hæstv. ráðherra fullyrti í ræðunni á undan mér.

Það er grundvallaratriði í þessu máli að okkur ber ekki lagaleg skylda til að greiða þessar kröfur Breta og Hollendinga. Það er grundvallaratriði í málinu sem við skulum aldrei og megum aldrei gleyma í þessari umræðu. Hins vegar var ákveðið að fara af stað og reyna að ná samningum við Breta og Hollendinga, einfaldlega vegna þess að mönnum þótti bragur að því að reyna að semja einhvers konar frið við þessar þjóðir sem hingað til hafa talist til vinaþjóða okkar. Engu að síður hefur það alltaf legið fyrir og margoft komið fram, sérstaklega í umræðunni um hina fyrri tvo samninga, að það að hafa farið af stað í samningaferli þýðir ekki að rétt sé að samþykkja hvaða samning sem er. Þetta er grundvallaratriði og þess vegna hefur þingið fullar heimildir, allir þingmenn sem hér starfa, hvort sem þeir hafa hampað þessu samningaferli og því að hafa farið þessa leið eða ekki, að skipta um skoðun og neita þessum samningum. Þetta er grundvallaratriði.

Vissulega er óvissa á báða bóga, hvort sem Alþingi tekur þá afstöðu að segja já við þessu máli eða nei. Við þurfum einfaldlega að setjast yfir það og meta hvort það að segja já eða segja nei þjóni betur hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Óvissan við það að segja nei er sú að þá er boltinn í höndum Breta og Hollendinga og þeir þurfa þá að ákveða með hvaða hætti þeir bregðast við því. Við getum ekki stjórnað því hvernig þau viðbrögð verða.

Óvissan á hinn bóginn við að samþykkja þennan samning og þetta mál sem liggur fyrir þinginu felst aðallega í þrennu. Það á að greiða upp í þennan samning með eignum úr þrotabúi Landsbankans. Það liggur ekki fyrir hverjar eignir þessa þrotabús eru og það er mikil óvissa um heimtur í þrotabúið. Það er ekki hægt að fullyrða hvernig það muni enda eins og umræðan um þessi skuldabréf í gamla Landsbankanum hefur leitt okkur inn í á undanförnum dögum sem reyndar hefur ekki fengist fullrætt í þinginu sökum tímaskorts. Enn og aftur lendum við í því í þessu Icesave-máli að hafa ekki nógan tíma vegna þess að pressan er svo mikil á að klára þetta. Nú á það að gerast í skjóli nætur að umræðan klárist og hér stend ég ein í þessum þingsal ásamt hæstv. forseta og ræði þetta mál. (Gripið fram í: Ég er komin.) Óvissan felst líka í því að ekki liggur fyrir með hvaða hætti íslenska ríkið eigi að standa undir greiðslum á þessu samkomulagi og þessum samningi. Það liggur ekki fyrir með hvernig það á að gerast enda liggur heldur ekki fyrir hver upphæðin í raun og veru er. Í þriðja lagi felst óvissan í gengisáhættunni vegna þess að við ráðum ekki við það hvernig það mál mun þróast. Þetta er eins og að við séum að fjárfesta í einhvers konar bifreið sem við vitum ekki hvað kostar. Við ætlum að greiða upp í kaupverðið með annarri bifreið sem við vitum heldur ekki hvað við fáum fyrir. Þess vegna er ljóst að það er mikil óvissa í þessu máli.

Ég met það svo að ég vil frekar segja nei og taka áhættuna af því að Bretar og Hollendingar fari í dómsmál og láti reyna á réttarstöðu sína vegna þess að ég tel okkar réttarstöðu vera sterka. Það er það sem liggur fyrir mér og það er mín niðurstaða. Þess vegna segi ég nei við þessu máli. Ég treysti dómstólum til að meta hagsmuni okkar, til að horfa á málið í heild og taka ákvörðun á grundvelli gildandi laga og réttar. Ég tel að við eigum ekki að vera hrædd við þá leið.

Sá samningur sem hér liggur fyrir er, eins og fullyrt hefur verið og margoft sagt í þessum ræðustól, margfalt betri en hinn svokallaði Svavarssamningur. Sá samningur er hins vegar móðir allra slæmra samninga sem gerðir hafa verið þannig að hvaða samningur sem er mundi koma vel út í þeim samanburði. Við skulum aldrei gleyma þeirri staðreynd.

Talsvert hefur verið rætt um þjóðaratkvæðagreiðslu og í þinginu eru komnar fram tvær mismunandi tillögur um hana. Við þekkjum forsögu þessa máls þar sem það fór í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir rétt um ári eftir að forseti Íslands hafnaði því að staðfesta lögin sem þá lágu fyrir. Við þekkjum það að þjóðin hafnaði þessu máli á þeim tímapunkti. Í ljósi þeirrar forsögu tel ég rétt að málið verði að nýju lagt fyrir þjóðina sem taki afstöðu til þess hvort þessir samningar verða samþykktir eða ekki. Ég tel einfaldlega að það náist engin lúkning á þetta mál, enginn endir, enginn endapunktur, hvorki fyrir mig sem er á móti því að samþykkja það né þá sem eru því fylgjandi, fyrr en þjóðin hefur að nýju tekið afstöðu til þess. Nú segja margir hverjir úti í samfélaginu að menn séu komnir með leiða á Icesave, menn nenni ekki að tala um þetta, menn nenni ekki að setja sig inn í þetta og vilji bara að þingið klári það. Ég segi við það ágæta fólk: Við verðum einfaldlega að setjast yfir þetta mál enn og aftur. Hér er um að ræða slíkar skuldbindingar af hálfu íslenska ríkisins að við öll verðum að hafa skoðun. Við verðum að setjast yfir þetta, hvert og eitt, og kynna okkur samninginn vegna þess að öll umræðan um samninginn sjálfan er í raun og veru eftir. Það eina sem hefur hingað til komist á framfæri í fjölmiðlum er það hversu góður þessi samningur er miðað við Svavarssamninginn. Það er einfaldlega ekki í boði að vera leið á Icesave. Ég vildi að ég gæti sagt að það væri í boði en það er það ekki. Við verðum að klára þetta saman og þessi þjóðaratkvæðagreiðsla þarf að fara fram svo við náum að ljúka þessu máli.

Virðulegi forseti. Allt frá því að þetta mál kom fyrst inn í þingið hefur verið mikill asi á því og það hefur verið reynt að halda til baka upplýsingum um stöðu þess og varðandi það hvernig það allt saman er til komið. Við þekkjum það að ríkisstjórnarflokkarnir ætluðu sér á sínum tíma að keyra þetta mál í gegnum þingið án þess að menn næðu að kynna sér það til hlítar. Ég segi: Sem betur fer varð það ekki raunin og við skulum öll vera stolt af því að hafa tekið þátt í þeirri baráttu að ná því að það varð ekki að veruleika á sínum tíma. Þegar við horfum til baka og sjáum hversu miklum tíma við höfum eytt í þetta mál og hversu afspyrnuleiðinlegt okkur þykir að fjalla um það skulum við láta okkur hafa það að eyða aðeins meiri tíma í þetta vegna þess að ég tel að við höfum einfaldlega ekki efni á því að vera leið á Icesave. Við verðum að klára þetta fyrir okkur sjálf og fyrir börnin okkar sem að öðrum kosti gætu lent í því að sitja uppi með mörg hundruð milljarða króna skuldbindingu til næstu áratuga. Þetta eru einfaldlega staðreyndir málsins. Það er gríðarleg óvissa um það hver hin raunverulega endanlega niðurstaða verður varðandi greiðslur af þessu samkomulagi og jafnframt um það með hvaða hætti íslenska ríkið mun standa undir þessum skuldbindingum og hvort það á annað borð er möguleiki.

Í ljósi alls þessa er það niðurstaða mín að það sé rétt að segja nei við þessu máli, taka þá frekar þann kostinn að standa á rétti okkar vegna þeirrar grundvallarstaðreyndar að okkur ber ekki lagaleg skylda til að greiða þessar kröfur eða ganga að því að semja um þær við Breta og Hollendinga. Þetta er grundvallaratriði í málinu. Við skulum aldrei gleyma því. Almennt tíðkast í vestrænum heimi, vestrænum lýðræðisríkjum sérstaklega, að þegar menn verða fyrir barðinu á hryðjuverkalögum, eru beittir harðræði og kúgunum af hálfu annarra þjóða eða einhverra hagsmunasamtaka, standa þeir keikir og segja nei. Maður lætur ekki bjóða sér slíka framkomu. Þótt það sé kannski erfitt og taki í er skárra að standa beinn í baki og láta reyna á réttindi sín. Ég treysti dómstólum og þess vegna er það niðurstaða mín að það sé rétt að segja nei í þessu máli og ganga þann veg þó að í því felist ákveðin óvissa.