139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir ræðu hennar. Hún er einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem greiddu atkvæði á móti frumvarpinu í 2. umr. og vonast ég til að hún standi með sjálfri sér alla leið eins og þessi ræða bar með sér.

Það hefur verið farið aðeins yfir lögfræðihliðina á þessum samningi í dag og í kvöld. Mig langar því til að spyrja þingmanninn hvaða skoðun hún hefur á því að nú er ríkisstjórnin að leggja til í þriðja sinn að íslenskir skattgreiðendur gangist undir greiðsluskyldu sem er ekki lögbundin. Nú sætir Landsbankinn sakamálarannsókn og eins og þingmaðurinn veit hvað varðar kröfurétt er ekki hægt að fara fram á greiðslur þegar svo er, því ef gjörningurinn er ólöglegur þá skapast ekki greiðsluskylda.

Fram hefur komið í fréttum að æðstu stjórnendur gamla Landsbankans sæta rannsókn og þeir hafa jafnframt fengið bréf. Er ekki hálfeinkennilegt að ríkisstjórn í sjálfstæðu ríki eins og við teljum okkur lifa í fari fram með þessa kröfu á þeim forsendum? Væri ekki réttara að bíða eftir því hvað kemur út úr þessari sakamálarannsókn þó að það taki lengri tíma? Vegna þess að þetta mál þolir augljóslega að bíða miðað við þær hótanir sem við höfum setið uppi með hjá þessari ríkisstjórn, það er ekki enn kominn kaldur frostavetur. Væri ekki rétt að bíða þar til rannsókn á gamla Landsbankanum er lokið og taka þá ákvörðun um málið þegar öll kurl eru komin til grafar í þeirri rannsókn?