139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:10]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er ekki kunnugt um hvort og þá með hvaða hætti ríkisstjórninni hafi verið hótað í þessu máli. Hins vegar hefur ýmislegt verið fullyrt í gegnum tíðina um hótanir. Við könnumst við það úr umræðunni í þessum sal hverju var hótað mundi þetta mál ekki fara í gegnum þingið fyrir ári síðan og hvaða afleiðingar það mundi hafa. Frostaveturinn mikli, við könnumst við hótanapóstinn sem gekk milli samfylkingarmanna undir nafninu rauða línan eða eitthvað slíkt, Rauði þráðurinn, þar sem því var haldið fram að hér yrði ísöld ef svo mundi fara að málið færi ekki í gegn. Við könnumst alveg við það, en hér varð ekki ísöld þó að þjóðin hefði hafnað þessu máli í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það sama er uppi á teningnum núna. Ég óttast ekki að hér verði ísöld þó að við reynum að sporna við fótum og hafna því að málið fari í gegn.

Ég vil hvetja alla þá sem fylgjast með umræðunni og hafa áhuga á að taka afstöðu í málinu að fara inn á vefsíðuna kjósum.is og skrá sig og leggja þar með fram afstöðu sína. Það er mikilvægt að við höfum skoðun á því hvort málið eigi á ný að fara fyrir þjóðina, það er mjög mikilvægt að við sem erum á þeirri skoðun stöndum saman um það. Við þurfum að sýna það í verki að við höfum áhuga á að taka þátt í ákvörðuninni um lok þessa máls. Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt.

Hvort ríkisstjórnin er hrædd við þjóðina, það þekki ég svo sem ekki. Ég vona svo sannarlega að það sé ekki ástæðan fyrir því að við stöndum hér og horfum fram á það að tala langt fram á nótt um þetta mikilvæga mál. Ég vona að það sé ekki ástæðan, að ríkisstjórnarflokkarnir vilji ekki leyfa umræðunni að lifa lengur til að koma í veg fyrir að fleiri undirskriftir dælist inn á þessa ágætu heimasíðu. Ég vona að það sé ekki ástæðan en hver veit. Ég get því miður ekki lesið hugsanir Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar og ég er ekki alveg viss um að ég kæri mig um það.