139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Það er mjög ánægjulegt að sjá að þingmaðurinn er mjög staðföst í trú sinni og áliti á þessu máli og ætli sér að standa vörð um þjóðina og hagsmuni hennar alla leið. Það er mjög mikilvægt að við sem flest gerum það og auðvitað erum við væntanlega að reyna að gera það, öll með mismunandi sjónarhorni þó.

Það hefur komið fram í mörgum ræðum um málið að við erum að taka að okkur að greiða skuld sem einkaaðilar stofnuðu til. Verið er að ríkisvæða skuldir einkaaðila og varpa þeim á þjóðina og framtíðina án þess að okkur beri nokkur lagaleg skylda til þess. Nú veit ég að hv. þingmaður hefur kynnt sér þessi mál mjög vel og ber gott skynbragð á hina lagalegu hlið enda menntuð í þá veru. Mér er ómögulegt að skilja, frú forseti, að Íslendingar, íslensk stjórnvöld, skuli ekki halda á lofti og berjast af krafti gegn því að á okkur sé dembt skuldbindingum sem okkur ber engin skylda til að gangast undir.

Ég hef líka margoft rætt hér að ég tel að Bretar sérstaklega skuldi íslensku þjóðinni tugi eða hundruð milljarða vegna þess tjóns sem þeir ollu með því að beita hryðjuverkalögum á Íslendinga. Því langar mig í þessu fyrra andsvari að spyrja hv. þingmann hvort hún sé þeirrar skoðunar að við eigum að ganga hart fram í því að krefja Breta um bætur fyrir það tjón sem þeir hafa valdið okkur og þar af leiðandi velti ég því upp, og það er kannski ekki bein spurning, að sjálfsögðu hefðum við átt að beita þeirri taktík að skuldajafna hreinlega við þessa óþokka.