139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:19]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég er fylgjandi því að þjóðin fái að greiða atkvæði um málið og eins og ég fór yfir í ræðu minni þá er það í ljósi forsögu málsins sem ég tel að rétt sé að gera það að þessu sinni.

Því hefur verið haldið fram að hér sé um splunkunýtt mál að ræða sem tengist fortíðinni ekki neitt og þess vegna sé öll umræða um þjóðaratkvæðagreiðslu í þessu sambandi skrýtin. Við gætum þess vegna farið í þjóðaratkvæðagreiðslu einn daginn um breytingu á löggjöfinni um íþrótta- og æskulýðsmál o.s.frv. Það eru auðvitað hártoganir frá fólki sem situr uppi rakalaust, með engin rök í málinu. Það er augljóst að samfella er í málinu allt frá því að Svavarssamningarnir ömurlegu komu inn í þingið. Það er augljóst. Þess vegna tel ég beint samhengi milli þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu sem fór fram fyrir réttu ári og þeirrar skoðunar minnar að rétt sé að þjóðin fái að kjósa um málið núna í þeirri stöðu sem það er í. Ég tel rétt í ljósi umræðunnar fyrr í dag um þá tillögu sem fram kom í þinginu af hálfu hv. þm. Þórs Saaris og þá afstöðu og þá gagnrýni sem kom fram hjá þingflokksformanni Vinstri grænna um að hún stæðist líklega ekki skoðun gagnvart stjórnarskránni. Það verði þá rökin hjá þeim hv. þingmönnum stjórnarliðsins sem hingað til hafa talað mjög fyrir því að leggja málið í dóm þjóðarinnar til að hafna þeirri leið. Af þeirri ástæðu tel ég rétt að skoða tillögu hv. þm. Péturs H. Blöndals rækilega vegna þess að það er á engan hátt hægt að hafa slík orð um þá tillögu líkt og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hafði um fyrri tillöguna sem lögð var fram af Þór Saari og fleirum.

Ég styð það fyllilega að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Af þeim tveim tillögum sem komnar eru fram líst mér gríðarlega vel á tillögu hv. þm. Péturs H. Blöndals og mælist til þess að allir þingheimur sem og þjóðin öll kynni sér hana.