139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:22]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er hálfsorglegt og -nöturlegt að þurfa að ræða um þetta stórmál þegar langt er liðið á kvöld vegna þess að við erum að ræða hér um sögulegt mál sem er í raun og veru algjörlega dæmalaust, um það með hvaða hætti eða hvort Íslendingar eigi að gangast undir þær klyfjar sem mér sýnist að meiri hluti Alþingis, þ.e. stærstur hluti þingflokka Vinstri grænna, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, ætli að samþykkja að óbreyttu. Ekkert okkar í Framsóknarflokknum styður þá samninga sem hér liggja fyrir og mig langar að reifa mín sjónarmið gagnvart þeim og hvers vegna ég get sannfæringar minnar vegna með engu móti stutt þessa samninga.

Til að mynda langar mig að benda þeim sem halda því fram að þeir sem studdu þessar viðræður áfram hafi aldrei viljað semja um eitt eða neitt á að sá sem hér stendur tilheyrir ekki þeim hópi. Ég vildi sjá betri samninga en komu út úr þessum samningaviðræðum þrátt fyrir ágætt starf sem þar hefur verið unnið. Eitt get ég ekki fellt mig við, það að við Íslendingar þurfum að bera alla efnahagslega áhættu þegar kemur að þessum samningum. Ég get einfaldlega ekki sætt mig við að hver einasti Íslendingur þurfi að greiða allt að 2 millj. kr. ef allt fer á versta veg og að við tryggjum hagsmuni Hollendinga og Breta algjörlega. Það er ekki hægt að kenna Íslendingum einum um það hvernig málum er fyrir komið og það höfum við rætt í tugi klukkustunda á vettvangi þingsins. Samvisku minnar vegna, og við erum að skrifa söguna hér, get ég ekki samþykkt slíkt. Ég held að við þurfum líka að átta okkur á því að þing og þjóð ganga ekki í takt í þessu máli. Það er vík á milli þingsins og þjóðarinnar. Það hafa skoðanakannanir sýnt, það sýna núna undirskriftir sem eru í gangi á kjósum.is þar sem um 26 þúsund Íslendingar eru búnir að greiða atkvæði með því að málið fari aftur til þjóðarinnar þar sem það var.

Við skulum ekki gleyma því að núverandi ríkisstjórn náði að koma Icesave-samningum númer 2 í gegnum þingið í krafti meiri hluta síns, samningum sem forseti lýðveldisins ákvað að synja staðfestingar og skjóta til þjóðarinnar. Hvernig fór sú atkvæðagreiðsla? 98% Íslendinga á kjörstað höfnuðu þeim samningum. Þá gekk þjóðþing Íslendinga ekki í takt við íslenska þjóð. Við erum komin aftur á slíkan tímapunkt hér í þessari umræðu. (VigH: Hneyksli.) Við skulum bara muna að undirskriftasöfnunin sem þá átti sér stað var í mun lengri tíma en sú undirskriftasöfnun sem nú stendur yfir og nú er mér sagt að á þeim stutta tíma frá því að ég fór úr stólnum mínum upp í ræðupúlt hafi 200 Íslendingar bæst við á kjósum.is. Það sýnir þungann í þessu máli.

Annað get ég heldur ekki sætt mig við, það hafa komið upp álitamál í fjárlaganefnd núna þar sem þingmenn hafa farið fram á að meiri tími — við erum ekki að tala um marga daga í þeim efnum — færi í að gaumgæfa ýmsar upplýsingar sem hafa komið fram vegna þess að forsendur breytast dag frá degi.

Hver voru vinnubrögðin? Könnumst við við þau? Já, við könnumst við þau. Málið var rifið út úr fjárlaganefnd Alþingis í gærkvöldi og þingmönnum stjórnarandstöðunnar gert að vinna til klukkan fimm í morgun að nefndarálitum um þetta mikilvæga mál. Ég verð að segja það, frú forseti, gagnvart ágætum félögum okkar framsóknarmanna í stjórnarandstöðu, sjálfstæðismönnum, að mér þótti sárt að þeir skyldu ekki standa með okkur í því að við fengjum að skoða þetta mál betur þannig að við þyrftum ekki að vinna þessi verk í skjóli nætur. Ég hélt að fortíðin í þessu máli hefði kennt okkur að það er betra að taka sér rýmri tíma til að fara yfir þessi mál og gaumgæfa þau en að vera með þetta offors sem hefur einkennt málið á síðustu dögum í meðförum þingsins. (VigH: Hvers vegna …?)

Hvers vegna er þetta offors, hvers vegna er allur þessi hraði? (Gripið fram í.) Getur það verið vegna þess að það er sívaxandi stuðningur úti í samfélaginu hjá íslenskum almenningi við að fá að eiga lokaorðið þegar kemur að því hvort við ætlum að undirgangast þessa samninga eður ei? Ég held að það sé hin eina sanna og rétta skýring, því miður. Þessi vinnubrögð, eins og ég hef átalið á öllum stigum þessa máls eru fordæmalaus og eins og ég sagði áðan erum við að skrifa mjög merkilega sögu sem endapunkturinn er því miður að komast á. Þegar ég segi því miður er það ekki vegna þess að ég vilji ekki klára málið en ég vil ekki klára þetta mál með hvaða hætti sem er.

Ábyrgð þeirra þingmanna sem munu segja já við þessu máli verður mikil. Þeir segja þar með að öll efnahagsleg áhætta vegna þessara samninga skuli vera á herðum 300 þúsund manna íslenskrar þjóðar. Við skulum ein bera þá ábyrgð og ekki bara við sem hér stöndum, heldur þær kynslóðir sem ætla að búa í landinu. Ég held að á þessum tímum þurfi Íslendingar á að halda stjórnmálamönnum sem hafa kjark og þor. Getum við líkt þessu máli við einhver önnur sambærileg mál í lýðveldissögu okkar? Ég held því fram. Til að mynda í þorskastríðinu við Breta á sínum tíma áttum við kjarkaða stjórnmálamenn eins og Ólaf Jóhannesson. Það þurfti kjark þegar menn beittu klippunum í fyrsta skipti. Það tók á og það kostaði heilmikil átök en á þeim tíma bárum við gæfu til þess að hafa forustumenn í ríkisstjórn sem sameinuðu Alþingi að baki sér að mestum hluta og íslenska þjóð og staðreyndin var sú að við náðum í því stríði gríðarlegum árangri sem við búum að enn í dag.

Það er hálfasnalegt að tala fyrir hér um bil tómum sal í þessu stóra máli en ég tel að sagan muni dæma okkur vel, vonandi, því að auðvitað vonum við öll að þetta mál endi vel á endanum, að hvorki verði erfiðleikar í Evrópu né hér á landi í efnahagslífinu á næstu árum. En hvað ef það gerist? Á árunum 2005 og 2006 trúði enginn að á árinu 2008 mundi efnahagslíf Íslendinga hrynja. Það getur gerst þannig að við skulum hafa það í huga, frú forseti.

Svo er annað sem við höfum lítið rætt, maður er eiginlega orðinn þreyttur á því vegna þess að það þýðir einfaldlega ekki, ábyrgð ríkisstjórnarinnar við meðhöndlun þessa máls. Hvað hefur hæstv. fjármálaráðherra oft sagt í þessari umræðu að hann muni axla pólitíska ábyrgð á hinum fyrri samningum? Í hverju er sú ábyrgð fólgin? Hann tjáði okkur það þegar trúnaðarmaður hans, Svavar Gestsson, hélt um stjórnartaumana og kom með fyrsta Icesave-tilboðið sem hefði kostað okkur 400–500 milljarða kr. að þar stefndi allt í glæsilega niðurstöðu. Ég held að við finnum ekki nokkurn Íslending á landinu sem er á þeirri skoðun í dag að við hefðum getað borgað samningana eins og þeir blöstu við okkur þá, enda tókst með samstilltu átaki stjórnarandstöðunnar á þinginu að afstýra því. Hluti stjórnarliða tók þátt í því, við skulum ekki gleyma því, að við tölum ekki um Indefence-samtökin sem hafa unnið íslenskri þjóð ótrúlega hluti á skömmum tíma með hugsjónastarfi og sjálfboðavinnu.

En það kemur ekki til greina að ríkisstjórnin axli ábyrgð og um það er varla rætt, t.d. af hálfu fjölmiðlamanna sem gætu spurt hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. fjármálaráðherra hvort þeir teldu sig ekki hafa gert fullmikið af axarsköftum í þessu máli frá upphafi og hvort þeir ætli að axla ábyrgð með einhverjum hætti á því. Nei, það er ekki spurt að því. Þegar ráðherra í ríkisstjórn Íslands gerist brotlegur og er dæmdur af Hæstarétti þjóðarinnar slá forustumenn ríkisstjórnarinnar skjaldborg um viðkomandi ráðherra og hæla honum ef eitthvað er fyrir að hafa þorað að standa í lappirnar og brjóta lög, lög sem við sjálf höfum samþykkt á vettvangi þingsins. Það er eðlilegt að maður velti fyrir sér á hvaða vegferð íslensk stjórnmál séu sem og íslenskt samfélag. Það er mjög varhugaverð þróun að slíkur valdhroki sem hefur endurspeglast frá upphafi í þessu máli og endurspeglast í viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar skuli koma fram á vettvangi þingsins sem raun ber vitni.

Ég hef líka áhyggjur af því hversu andvaralausir fjölmiðlar eru gagnvart ríkisstjórninni þegar kemur að aðhaldi fjölmiðlanna. Jú, fjölmiðlar eru mjög duglegir að benda á að við í stjórnarandstöðunni tölum mikið um Icesave-málið. Það var heilmikill áróður fyrir því á fyrri stigum, við Icesave 1 og 2, að þá samninga ætti að samþykkja. Það var ekki alltaf auðvelt að standa hér og gagnrýna. Hvar var aðhald fjölmiðlanna þá? Og ég spyr: Hvar er aðhald fjölmiðlanna í dag? Það er ánægjulegt að sjá að einn hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttur, er gengin í salinn.

Við erum að tala um að á þessu ári greiðum við 26 þús. millj. kr. í vaxtagreiðslur vegna þessara samninga ef þeir verða samþykktir. Setjum sem svo að ríkisstjórnin ætlaði á sama tíma að skera niður í ríkisútgjöldum um 30 milljarða kr. Þetta eru svipaðar upphæðir, 26 milljarðar í Icesave og 30 milljarðar í blóðugan niðurskurð í heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfinu. En 30 milljarðarnir eru svo miklu lægri tala þegar upp verður staðið en þessir 26 milljarðar sem eru einfaldlega peningar sem fara beint út úr hagkerfinu í formi gjaldeyris, beint til Breta og Hollendinga, en niðurskurðurinn upp á 30 milljarða, sem eru að 79% leyti laun, er þannig að 21 milljarður fer í laun til íslensks launafólks sem borgar sína skatta, kaupir vörur og þjónustu og borgar virðisaukaskatt af því þannig að stór hluti af þessum 30 milljörðum veltist áfram í hagkerfinu. Færri þurfa að vera án atvinnu þannig að ef við erum að tala um 26 milljarða kr. í ár samanborið við 30 milljarða kr. niðurskurð í velferðarkerfinu eru þessir 26 milljarðar kr. ígildi 50–60 milljarða kr. niðurskurðar í því kerfi. Gera menn sér virkilega grein fyrir því hvað við erum að tala um háar upphæðir í þessu samhengi?

Ég vil minna á að niðurskurður í heilbrigðiskerfinu núna fyrir áramót upp á 4 milljarða kr. á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og á mörgum heilbrigðisstofnunum hringinn í kringum landið olli því að heilu samfélögin stóðu upp og slógu skjaldborg utan um heilbrigðisstofnanir sínar. Síðan ætla menn hér í skjóli nætur að veita þessu máli brautargengi. Það er einn þingmaður í salnum fyrir utan hæstv. forseta þegar við ræðum þetta gríðarlega mikla hagsmunamál sem getur skuldbundið íslenska þjóð til næstu áratuga um milljarðatugi, jafnvel hundruð milljarða, og við Íslendingar eigum ein að taka á okkur þá áhættu að efnahagsþróunin verði á verri veg. Það að saka þann sem hér stendur um að ég hafi aldrei viljað semja um þetta mál, að ég hafi frá upphafi viljað fara dómstólaleiðina, er einfaldlega rangt. Ég gerði mér einfaldlega meiri vonir um að við gætum náð betri samningum.

Hugsið ykkur stærðarhlutföllin. Kostnaðurinn vegna Icesave á hvern Íslending er frá 200 þús. kr. upp í 2 millj. kr., það fer eftir því hvernig efnahagurinn mun þróast, en ef við mundum deila þessu niður á Breta og Hollendinga værum við að tala um 1 evru eða 1 pund á hvern íbúa þar. Það er engin sanngirni í þessu, þetta er ekki einkamál okkar Íslendinga. Við berum ekki alla sökina í þessum efnum. Við eigum að standa keik og við eigum að tala máli íslensku þjóðarinnar. Því miður er ekki samstaða um slíkt og mér þykir leitt að sjá (Forseti hringir.) hvernig þessir samningar að öllu óbreyttu verða afgreiddir hér með miklum (Forseti hringir.) meiri hluta atkvæða þingmanna, því miður.