139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:39]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir hv. þm. Pétur H. Blöndal kasta steinum úr glerhúsi í andsvari sínu vegna þess að við þingmenn Framsóknarflokksins og þingmenn Hreyfingarinnar stóðum upp fyrr í dag og óskuðum eftir því að fá að ræða þetta mál lengur en á korteri. Ég varð ekki var við að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hlypu upp í ræðustól þingsins til að taka undir það og ekki að hv. þingmaður hefði gert það. Hann ætlast síðan til þess að sá sem hér stendur geti farið í gengum málið á 15 mínútum — hv. þingmaður veit vel hversu umfangsmikið málið er — eftir að félagar hans í þingflokki Sjálfstæðisflokksins stóðu ekki með okkur fyrr í dag þegar við óskuðum eftir því að fá rýmri tíma til að ræða þetta mál. Þar stóðum við einir, þingmenn Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar.

Þegar kom að því að hv. þingmaður sagði réttilega að hv. fjárlaganefnd hefði vanrækt það hlutverk að skoða þessa hluti betur vildi ég benda honum á að fulltrúar Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar í fjárlaganefnd lögðu til að málin yrðu skoðuð betur á vettvangi fjárlaganefndar. Hvað gerðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins við þá afgreiðslu í fjárlaganefnd? Þeir studdu það ekki. Mér er því alveg fyrirmunað, frú forseti, að svara þessu með öðrum hætti en þeim að auðvitað geri ég mér grein fyrir því að við tökum áhættu með því að segja nei. Ég ætla ekki að standa hér og segja að við séum ekki að taka neina áhættu. En hv. þingmaður hlýtur að vera sammála mér um að við getum verið að taka stóra áhættu með því að segja já vegna þess að þá berum við ein alla ábyrgð eða tökum alla áhættu af efnahagslegu fyrirvörunum. Bretar fá allt sitt greitt, Hollendingar fá allt sitt greitt. Við getum verið að steypa okkur í skuldafangelsi til tuga ára. Það felst líka ábyrgð í því.