139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:43]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fór svo sem ágætlega yfir hvaða kostir eru í stöðunni ef við samþykkjum þetta ekki hér. Í fyrsta lagi hafa lögspekingar sagt að það séu yfirgnæfandi líkur á að við vinnum það mál. Í öðru lagi held ég að talsverðar líkur séu á að Bretar og Hollendingar muni jafnvel ekki höfða slíkt mál. Í þriðja lagi ef við mundum tapa málinu, sem er mjög ólíklegt, eru langmestar líkurnar á því að við yrðum dæmd til að greiða þá upphæð sem við erum að samþykkja hér. Eftir að hafa kynnt mér álit margra okkar fremstu lögspekinga tel ég að það séu sáralitlar líkur á að við yrðum dæmd til að greiða einhver ósköp. Ef við segjum hins vegar já við þessum samningum getum við verið að taka áhættu á því, fari allt á versta veg í efnhagslegu tilliti, að íslenskt samfélag þurfi að borga 200 milljarða kr. Það felst engin smááhætta í því.

Frá því að ég tók til máls í þessari umræðu hafa 500 Íslendingar bæst á lista þeirra sem vilja fá að taka málið til sín á ný. 98% þeirra sem tóku afstöðu gagnvart síðustu samningum sögðu nei. Það hefðu átt að vera skýr skilaboð til meiri hlutans sem afgreiddi það frumvarp á vettvangi þingsins á sínum tíma. Ég held að við ættum að treysta þjóðinni til að eiga lokaorðið í þessu máli. Það er alveg ljóst að Alþingi Íslendinga gengur ekki í takt við íslensku þjóðina í þessu máli, það sýna skoðanakannanir og það sýnir sú vakning sem hefur orðið á málinu hér. Mér hefur þótt undarlegt hvernig þingflokkur sjálfstæðismanna hefur snúist í málinu á lokametrunum. Mér þykir það miður vegna þess að það væri (Forseti hringir.) verulegur akkur í því ef hann stæði með okkur í málefnalegu aðhaldi gagnvart stjórnarflokkunum (Forseti hringir.) í þessu ömurlega máli.