139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[23:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér var um athyglisverða ræðu að ræða enda veit ég að hv. þm. Pétur H. Blöndal er góður í líkindareikningi. Hann fór yfir það hvort hagstæðara hefði verið að semja eða fara í dómsmál og ég deili akkúrat þeirri skoðun með þingmanninum að áhættan af dómsmáli sé ekki svo mikil, sérstaklega miðað við samninginn sem var borinn á borð fyrir þjóðina síðast og Íslendingar höfnuðu eftirminnilega í þjóðaratkvæðagreiðslu. Dómsmál mundi aldrei tapast upp á meira en sá samningur hljóðaði upp á.

Mig langar til að benda þingmanninum á að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra kom í ræðustól í kvöld og talaði um að þetta væri besta niðurstaða. Mig langar til að fá fram hjá þingmanninum hvort hann telji þetta bestu niðurstöðuna sem var í boði í samanburði við það að samninganefndin hafði boðið tæplega 50 milljarða eingreiðslu og að Bretar og Hollendingar mundu þá taka þrotabúið upp í rest. Hvers vegna telur þingmaðurinn að Bretar og Hollendingar hafi ekki gengið að því tilboði? Ég minni enn á að okkur ber ekki samkvæmt lögum að greiða þetta. Þetta var nokkurs konar lokatilboð, mætti segja. Þessu var hafnað. Hverja telur hv. þm. Pétur Blöndal ástæðuna fyrir því að síðasti gjalddagi var færður af árinu 2030 til ársins 2046?