139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[23:05]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vill nefnilega þannig til að hver einasta evra og hvert einasta pund er ekki á ábyrgð íslensku þjóðarinnar. Þetta var einkabanki, það er verið að ríkisvæða einkaskuldir, ríkisvæða það sem þessir ólánsmenn komu okkur í. Þess vegna er með ólíkindum að það skyldi hafa farið með samninginn fram til ársins 2046. Telur þingmaðurinn yfirvofandi að Ísland lendi í greiðslufalli sem töluverðar líkur eru á miðað við þær upplýsingar sem koma fram í skýrslu Seðlabanka Íslands sem má ekki gera opinbera? Er þetta þá ekki u.þ.b. 35 ára tími sem mundi taka Breta og Hollendinga að þurrka hér upp allar okkar auðlindir, leggja rafmagnskapal til Evrópu, tæma kaldavatnsbirgðirnar okkar, þurrka upp fiskinn í sjónum og vera jafnvel komnir í olíuna sem mögulega finnst hér innan lögsögunnar?