139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[23:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get verið sammála hv. þingmanni um að pólitísku líkurnar eru töluvert aðrar en þær lagalegu miðað við það sem við höfum séð í áliti sérfræðinga. Pólitísku líkurnar eru vitanlega þær að þessar meintu vinaþjóðir sem hv. þingmaður er búinn að útskýra ágætlega í þessum ræðustól munu beita hnefaréttinum og pólitíkinni til að ná sér niðri á okkur. Við sjáum það best á þeirri yfirlýsingu sem forseti ESA gaf út. Það er alveg forkastanlegt að maður í hans stöðu skuli gefa slíka yfirlýsingu og að sjálfsögðu á ríkisstjórnin að krefjast þess, og við hér, að þessi maður víki úr því starfi sem hann gegnir. Það er alveg ljóst að hann er ekki hlutlaus aðili í þessari stofnun. Ég kalla hreinlega eftir því núna að ríkisstjórnin beiti sér af hörku gegn honum.

Ég er sammála hv. þingmanni um þetta hámark, það er mjög mikilvægt að sett verði hámark á þetta og hugsanlega mundi það breyta ýmsu. (Forseti hringir.) Af því að nú stendur yfir undirskriftasöfnun á kjósum.is langar mig að spyrja hv. þingmann hvað hann telji að margir þurfi að koma til að forsetinn muni stoppa þetta mál.