139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[23:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru tvær mjög athyglisverðar spurningar. Í fyrsta lagi: Getur ESA fellt pólitíska dóma? Ég hugsa að hann geti það að vissu marki. Lögfræðingar hafa sína sjálfsvirðingu og þeir fara ekki alveg þvert á lög eða rök sem koma fram í réttarhaldinu þannig að það getur verið erfitt fyrir þá að dæma algjörlega út í bláinn. Það sem gæti gerst er að það gerðist bara ekki neitt af því að þeir sem geta sett svoleiðis málaferli í gang eru Bretar og Hollendingar. Segjum að þeir geri ekkert í 20 ár og við sitjum uppi með þessa deilu óleysta allan þann tíma og þeir nudda í okkur úti um allt. Það getur orðið dálítið þungbært. Það þurfa menn að hafa í huga líka.

Svo er það hinn skemmtilegi vinkillinn á þessu sem ég hef nefnt áður: Hvað gerist ef þetta fer í dóm? Ég hugsa að það fari ekkert í dóm. Þá verða menn kannski allt í einu tilbúnir til að semja á jafnréttisgrundvelli, að þeir taki hluta af áhættunni af Íslendingum, vegna þess að þeir vilja hvoruga niðurstöðuna, hvorki vinna né tapa. Ef þeir tapa kemur bara í ljós að þessir bankar eru annaðhvort ekki tryggðir eða skattgreiðendur borga það. Þá fara skattgreiðendafélögin í gang sem eru mjög öflug í Evrópu, ekki á Íslandi, eða sparifjáreigendur hlaupa út úr bönkunum því að þeir óttast að spariféð sé bara ekki tryggt, eins og það er á Íslandi. Þá kemur í ljós að þetta innlánstryggingakerfi er veikburða. Ég hugsa að þeir vilji ekki fá dóm. Þá munu þeir væntanlega muna eftir því af hverju þeir greiddu út þessar innstæður. Þeir greiddu þær nefnilega út til að bjarga trausti almennings í Bretlandi og Hollandi og um alla Evrópu á bönkunum, til að forða bönkum Evrópu frá áhlaupi. Það er það sem þeir óttuðust mest. Þess vegna voru Bretar og Hollendingar svona óskaplega góðir við Íslendinga, borguðu þessar innstæður og buðust m.a.s. til að lána þeim fyrir innstæðunum. Það var bara til að bjarga eigin skinni.