139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[23:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Bretar og Hollendingar greiddu út af sömu ástæðu og þeir munu líklega ekki vilja fara með þetta mál fyrir dómstóla. Ég hefði áhuga á að heyra álit hv. þingmanns á því sem hann reyndi að koma aðeins inn á í ræðu sinni og er ein af forsendunum í áliti þingmanna Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd fyrir 2. umr. þar sem kemur fram að sjálfstæður áhættuþáttur, stór áhættuþáttur, sé ríkisstjórnin sjálf og efnahagsstefna hennar. Er það ekki fullmikil bjartsýni að mati hv. þingmanns að gera ráð fyrir verulegri breytingu á efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar eða að henni fari að takast að koma hagvexti af stað?

Af því að hv. þingmaður vitnaði óbeint í járnkanslarann Bismarck um að þjóðir ættu ekki vini heldur hagsmuni, eins og við höfum heldur betur orðið vör við núna, er spurningin: Þurfum við ekki einmitt að meta hverjir eru raunverulegir hagsmunir í þessu máli, til að mynda varðandi viðskipti við landið? (Forseti hringir.) Veltur ekki viðskiptavandi bara á hagsmunum þeirra sem í hlut eiga, ekki því hvort íslenska fjármálaráðuneytið á í deilum (Forseti hringir.) við einhver önnur ráðuneyti?