139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[23:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta síðasta er hárrétt. Ef maður situr uppi með mikla peninga í Kína eða einhvers staðar annars staðar og þarf að koma þeim í ávöxtun, koma þeim í fóður, leitar hann að góðum kosti sem er öruggur og gefur góðan arð. Ef það er á Íslandi við virkjun eða eitthvað slíkt mun hann fara þangað. Icesave skiptir hann engu máli.

Hið sama held ég að gerist með þýska banka og austurríska, þeir munu ekki fjárfesta á Íslandi eftir reynslu sína. Þeir munu ekki gera það, alveg sama hvort við skrifum undir Icesave eða ekki. Þeir eru með svo bitra reynslu af tapi á Íslandi að ég held að Ísland sé algjört tabú í sölum þar á bæjum. Þeir muni ekki fjárfesta neitt þannig að ég skil ekki það vandamál.

Svo var það með — hvað var það aftur sem …? (SDG: … áhættuþáttur í ríkisstjórninni.) Já, það er einmitt málið. Þessi ríkisstjórn er nú að fara frá í hverri viku, hún fær hæstaréttardóma trekk í trekk þannig að við verðum bara að vona að einhvern daginn virki það.