139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[23:21]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Eftir að Hæstiréttur kvað upp úrskurð í dag um gengistryggingu lána eða húsnæðislána — að vísu í því tilviki húsnæðislán sem fyrirtæki tók — ákvað Frjálsi fjárfestingarbankinn að túlka niðurstöðu Hæstaréttar í því og í öðru máli á þann veg að mjög miklar líkur væru á að öll erlend lán, gengistryggð lán til fyrirtækja, væru væntanlega jafnólögleg og lán vegna bílasamninga fjármögnunarfyrirtækjanna, eins og við afgreiddum hér frá Alþingi, og húsnæðislán til heimila.

Þegar þessar fréttir birtust í fjölmiðlum sló það mig hvað við værum orðin dofin. Þarna var að mínu mati stórfrétt. Ef það reynist rétt að meginþorri þeirra lána sem hingað til hafa verið talin lán í erlendri mynt, lán á fyrirtæki, eru lán í íslenskum krónum erum við að tala um áfall á íslenska bankakerfið sem áætlað er að verði í kringum 50 milljarðar íslenskra króna. Ég hef að vísu óskað eftir því að fá nánari upplýsingar um þetta í viðskiptanefnd en þetta sýnir hins vegar hve endurreisn bankakerfisins er viðkvæm í sjálfu sér.

Við fjöllum hér um ábyrgð, til að setja þetta í ákveðið samhengi, höfum eytt mjög miklum tíma í að ræða þessa ábyrgð sem stjórnarliðar fullyrða að verði einungis í kringum 50–60 milljarðar, sem við munum endanlega greiða. Að sama skapi virðist vera að kostnaður sem er núna að falla á íslenska bankakerfið, upp á hugsanlega 50 milljarða, sé eitthvað sem menn ætla sér að yppta öxlum yfir.

Í umsögn til fjárlaganefndar sem ég stend að, ásamt hv. þm. Margréti Tryggvadóttur, fjalla ég sérstaklega um óvissuna um getu nýja Landsbankans til að greiða af skuldabréfi sem gefið var út í tengslum við uppgjör við gamla Landsbankann, og hvernig það tengist þessu máli. Það skuldabréf er hluti af uppgjöri vegna þeirra eigna sem færðar voru yfir í nýja Landsbankann og er talið vera um 30% af heildareignum þrotabúsins.

Þann 11. febrúar sl. birtist frétt í Morgunblaðinu og í kjölfarið á vef Viðskiptablaðsins þar sem segir að óvíst sé hvort nýi Landsbankinn geti greitt af heildarskuldinni upp á 280 milljarða kr. sem bankinn gaf út til gamla Landsbankans í erlendri mynt. Með leyfi forseta, segir:

„Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins komu fulltrúar NBI á fund skilanefndar gamla bankans í vikunni til að vara við því að hætta væri á að greiðsluflæði gjaldeyris inn í NBI stæði ekki fyllilega undir afborgunum af skuldabréfinu, sem allt á að greiðast í erlendum gjaldeyri, dollurum, pundum og evrum. […] Skuldabréfið er um fjórðungur eigna gamla Landsbankans og mun það hafa umtalsverð áhrif á efnahagsreikning þrotabúsins ef greiðslur frá NBI tefjast eða verða í krónum í stað erlendra mynta.“

Í kjölfarið óskaði ég eftir fundi í viðskiptanefnd til að fá nánari upplýsingar og staðfestingu á þessari frétt. Þar var staðfest að þetta gat væri þarna að þeirra mati og ekki nóg með það heldur að stjórnendur, bæði gamla og nýja bankans, virtust gera sér ágætlega grein fyrir því hversu mikil óvissa væri í sambandi við rekstur nýja Landsbankans. Það er óvissa sem Bankasýslan hefur líka bent á, hversu erfitt starfsumhverfi banka er á Íslandi. Skuldastaða viðskiptavinanna, fyrirtækja og heimila, hjá bönkunum er mjög erfið. Efnahagsástandið, eins og við höfum áþreifanlega orðið vör við, hefur ekki verið gott hér á landi og svo bentu þeir líka á að ákveðin óvissa væri um lögmæti gengistryggðra lána hjá fyrirtækjum og líka óvissa sem tengdist áformum stjórnvalda um að fara í fyrningu á aflaheimildum. Þetta allt gæti haft umtalsverð áhrif á rekstur og arðsemi nýja Landsbankans. Það mun að sjálfsögðu hafa áhrif á getu bankans til að borga af þessu skuldabréfi og getu bankans til að standa skil við þrotabúið og þar aftur á þrotabúið til að standa skil gagnvart kröfuhöfum sínum.

Það kom líka fram að ef nýi Landsbankinn gæti ekki staðið skil á skuldabréfinu að fullu leyti í erlendri mynt mundi bankinn leitast við að kaupa gjaldeyri, sem væri þá væntanlega af Seðlabankanum. En Seðlabankinn hefur hingað til ekki sýnt sérstaklega mikinn áhuga á því að gera þess háttar gjaldeyrisskiptasamninga eða samning við nýja Landsbankann. Ef gert yrði nýtt samkomulag á milli gamla og nýja bankans, þar sem samið yrði upp á nýtt um greiðslur á þessu skuldabréfi, og greitt þar á milli í krónum, þýðir það einfaldlega að gamli Landsbankinn mun þá borga kröfuhöfum í krónum. Það er ekkert flóknara. Það eru þeir peningar sem kröfuhafarnir, íslenska ríkið og innstæðutryggingarsjóðurinn, hafa til að borga af þessari ábyrgð, þessari skuld sem við erum að fjalla um. Þá er það spurning hvar eigi að finna þennan blessaða gjaldeyri.

Það er mér mjög minnisstætt að í lok Icesave — ef við tökum þetta sem Icesave 3 þó að ég hafi yfirleitt viljað tala um þetta sem Icesave 4, ef við lítum til viljayfirlýsingar sem lá fyrir á milli Íslands og Hollands — þá tengist stóri þátturinn, það sem ég hef haft mestar áhyggjur af, ekki því að ekki sé geta á Íslandi til að borga þessar upphæðir í íslenskum krónum en erfiðleikarnir snúa hins vegar að því hvort við munum hafa aðgang að nægum erlendum gjaldeyri til að geta staðið við skuldbindingar okkar. Þar horfum við á miklar erlendar skuldir, hvort sem við lítum til ríkisins, sveitarfélaganna, fyrirtækja og jafnvel í einhverjum tilvikum einstaklinga hér á landi. Síðustu tölur benda til að við séum jafnvel komin yfir þau mörk sem voru varúðarmörkin sem við töluðum um varðandi sjálfbærni erlendra skulda. Slagurinn á næstu árum mun því snúast um aðgang að gjaldeyri. Þar vill ríkið vera stærst og frekast þannig að kannski verða þá ekki miklir möguleikar fyrir nýja Landsbankann til að kaupa gjaldeyri heldur mundi hann þurfa að borga í krónum. Það þýðir þá að Seðlabankinn, þegar kemur að því að standa skil á þessu, mun að sama skapi hafa minna af gjaldeyri á milli handanna. Þetta er eitthvað sem ég hef haft miklar áhyggjur af. Ég hef líka haft verulegar áhyggjur af því hvernig staðið var að endurreisn bankakerfisins í heild og það getum við kannski rætt í annarri umferð.

Ég vil taka annað upp hvað varðar þessa umsögn frá mér og hv. þm. Margréti Tryggvadóttur til fjárlaganefndar en það varðar ábendingu sem ég kom á framfæri um hvort þetta samkomulag eða þessi ríkisábyrgð fæli hugsanlega í sér ólögmæta ríkisaðstoð samkvæmt 61. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Ég hef að vísu fengið upplýsingar um að þessi ábending var tekin mjög alvarlega og m.a. tekin upp við ESA, hvort þetta gæti hugsanlega verið. Eins og kemur fram í áliti okkar er bent á að ESA er þegar að rannsaka afskipti ríkisvaldsins af bankakerfinu og þá ríkisaðstoð sem bönkunum var veitt, hvort hún hafi verið hæfileg án þess að raska um of samkeppni, og fjárframlög íslenska ríkisins til banka væru þannig að skekkja mögulega samkeppnisstöðu fjármálafyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu.

Þarna bendum við á að í ítarlega rökstuddu áliti Peters Ørebechs frá Háskólanum í Tromsø kemur fram að tilskipun ESB/94/19, sem löggjöfin um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta byggir einmitt á, grunnlöggjöfin, kveður á um að í aðildarríkjum EES verði komið á fót innstæðutryggingarkerfum sem ekki raski samkeppni, sjálfbærum kerfum sem að fullu séu fjármögnuð af fjármálastofnunum. Telur Ørebech að sérhver tilraun ríkisstjórnar til að láta ríkisfjármuni bæta upp fjárskort slíks kerfis feli í sér ólögmæta ríkisaðstoð, samkvæmt 61. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Með leyfi forseta, vil ég lesa upp úr umsögn okkar:

„Af framangreindu er ljóst að ákveðin hætta er á því að úrskurður falli þess efnis að íslenska ríkið hafi brotið gegn samkeppnisákvæðum EES-samningsins með fjárframlagi sínu til fjármálafyrirtækja við endurreisn þeirra. Þá eru líkur á því að ábyrgð ríkisins á greiðslum Icesave-skuldanna fari gegn sömu ákvæðum. Verði staðan slík kann það að leiða til að styrkjaframkvæmdin verði færð til baka með einhverju móti, jafnvel með ógildingu þegar gerðra samninga og annarra gerninga með tilheyrandi tjóni fyrir íslenska ríkið.“

Það er hins vegar mjög áhugavert að velta þessu aðeins fyrir sér vegna þess að sá ræðumaður sem stóð í þessum ræðustól á undan mér, hv. þm. Pétur H. Blöndal, færði ansi ítarleg rök fyrir því að heilmikil pólitík væri í því hvernig evrópskir dómstólar dæmdu og líka í því hvernig ESA hefur tekið á þessum málum. Samkvæmt því mundi maður halda að við ættum ekki að hafa of miklar áhyggjur af þessu. En þó að einstakir embættismenn geti orðið fyrir áhrifum vegna þrýstings frá stjórnmálamönnum vil ég gjarnan hafa aðeins meiri trú á dómurum. Eins og við höfum fengið að finna fyrir á Íslandi er mjög mikið lagt upp úr því að dómarar séu óháðir og sjálfstæðir og þeir leggja mjög mikinn metnað í að dæma eftir lögum. Það er það sem við höfum haldið fram hreint og klárt að við höfum fullnægt innstæðutilskipuninni og að með því fyrirkomulagi sem verið er að þrýsta okkur út í, að fara út í stærstu einstöku ríkisaðstoð sem við höfum nokkurn tíma veitt einstökum lögaðila á Íslandi, séum við í raun og veru að aðstoða í gegnum ríkið, við erum að veita ríkisaðstoð. Og þetta skekkir líka, að mínu mati, mjög samkeppni á milli fjármálastofnana innan hins innri markaðar í Evrópu. Það þýðir einfaldlega að ef einhver áföll verða í einstökum löndum þá er þarna þessi undirliggjandi krafa um að stjórnvöld viðkomandi landa eigi að hlaupa undir bagga og aðstoða innstæðutryggingarsjóðinn. Þá kemur í ljós með því að stjórnvöld í minni löndum þar sem innstæðutryggingarsjóður er minni og ríki veikari munu ekki getað bakka banka sína upp í sama mæli og þurfi þá að takmarka möguleika banka sinna til að sækja fram á innri markaði til að vernda hagsmuni þegna sinna.

Það er ein ástæðan fyrir því að ég er þeirrar skoðunar að ef við ætlum að búa til raunverulegan innri markað á Evrópska efnahagssvæðinu, þar sem fjármálastofnanir eiga að geta veitt þjónustu þvert á landamæri, verðum við að búa til evrópskan innstæðutryggingarsjóð. Mér þykir mjög leitt hvað sú hugmynd hefur átt lítið upp á pallborðið hjá Evrópusambandinu. Það er eins og menn hafi ekki hugleitt það til enda hvað þeir eru raunverulega að gera, sérstaklega með þessum þrýstingi og þessari pressu á okkur að veita ríkisábyrgð á skuldum einkaaðila.

Þetta voru þeir helstu punktar sem ég vildi koma á framfæri í kvöld. Að lokum vil ég geta þess að allt það sem ég fór í gegnum í umræðum um Icesave 2 og Icesave 1, þau áhyggjuefni sem ollu því að ég var ekki tilbúin til að samþykkja þá samninga, hefur ekkert breyst með þessum samningi. Skoðun mín hefur ekki breyst og ég get engan veginn samþykkt að við veitum þessa ríkisábyrgð.