139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[23:57]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ekki væri vanþörf á að lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórnina ef örlög hennar yrðu þau sem hv. þingmaður lýsti. Syndalisti ríkisstjórnarinnar er orðinn það langur og hún hefur fengið það slæma útreið hjá þjóðinni, bæði í þessu Icesave-máli og í öðrum málum, að hún ætti út af fyrir sig að vera löngu farin frá.

Ég túlka svör hv. þingmanns þannig að hún líti svo á að verði þetta niðurstaðan sé ríkisstjórninni ekki sætt. Ég get fyrir mína parta alveg tekið undir það mat. Hvað framtíðin á hins vegar eftir að bera í skauti sér vitum við ekki en það verður forvitnilegt að sjá hver afdrif breytingartillagna um að vísa málinu til þjóðaratkvæðis verða í þinginu. Mér sýnist stuðningur við þær tillögur ná út fyrir ráðir þingmanna stjórnarandstöðunnar og sömuleiðis safnast sífellt fleiri undirskriftir fyrir áskorun til forseta Íslands um að beita 26. gr. stjórnarskrárinnar. Í því sambandi er ástæða til að rifja upp þegar ég og hv. þm. Birgir Ármannsson vorum í slagnum um fjölmiðlalögin sem forsetinn synjaði staðfestingar. Þá minnir mig að um 31.400 undirskriftir hafi verið afhentar forsetanum. Nú nálgast þessi undirskriftasöfnun þá tölu. Það verður því fróðlegt að sjá hvað gerist og sömuleiðis hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst bregðast við þeirri stöðu. Það er margt spennandi í (Forseti hringir.) stöðunni sem upp er komin í þessu máli.