139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[00:01]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Alveg frá upphafi þessa Icesave-máls hefur truflað mig verulega það tungutak sem menn hafa notað um þær kröfur sem hafðar hafa verið uppi á hendur okkur Íslendingum af hálfu Breta og Hollendinga. Í því sambandi er gjarnan talað um Icesave-skuldbindingar íslensku þjóðarinnar gagnvart Bretum og Hollendingum. Þar er illa farið með hugtök og rangt mál vegna þess að Icesave-málið snýst ekki, a.m.k. ekki enn sem komið er, um neinar skuldbindingar, þær liggja ekki fyrir, heldur um kröfur Breta og Hollendinga á hendur íslensku þjóðinni vegna skuldbindinga sem einkarekinn banki stofnaði til í útlöndum.

Það þarf ekki að lesa mikið í rannsóknarskýrslu Alþingis til að komast að þeirri niðurstöðu sem ég hygg að sé óumdeild, að ábyrgðin á þessu ömurlega máli hvílir fyrst og fremst auðvitað á þeim fyrrverandi stjórnendum Landsbankans sem stofnuðu til þessara reikninga. Hinu má ekki gleyma, að ábyrgðin á úrlausn þess eftir að stjórnvöld fengu málið í fangið við efnahagshrunið er alfarið á hendi núverandi ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar. Það var þessi hæstv. ríkisstjórn sem barðist fyrir Svavarssamningunum svokölluðu. Það var þessi hæstv. ríkisstjórn sem barðist fyrir því að þeir samningar sem Indriði H. Þorláksson kom með til landsins yrðu samþykktir á Alþingi. Í báðum tilvikum var ríkisstjórnin gerð afturreka með eigin samninga, nú síðast í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem 98% þess hluta þjóðarinnar sem mætti á kjörstað sögðu álit sitt á framgöngu ríkisstjórnarinnar í Icesave-málinu með því að segja nei. Í öllum siðuðum ríkjum hins vestræna heims hefði ríkisstjórn sem hefði fengið slíka útreið sagt af sér.

Nú liggja fyrir nýir samningar í þessu Icesave-máli. Það virðist vera almenn samstaða um að þeir samningar sem við ræðum núna séu miklu hagfelldari en hinir fyrri, þ.e. Svavarssamningurinn annars vegar og hins vegar samningurinn sem kenndur er við Indriða H. Þorláksson. Það er sagt í greinargerð með því frumvarpi sem fyrir liggur að skuldbinding samkvæmt þessum samningum nemi 47 milljörðum kr. verði samningurinn staðfestur, þ.e. 10 sinnum lægri fjárhæð en Svavarssamningurinn kvað á um. Sú fjárhæð er reyndar háð nokkurri óvissu, m.a. vegna gengisáhættu og líkum á endurheimtum eigna úr þrotabúi Landsbankans og reyndar fleiri atriðum. En þó að þessir samningar séu miklu hagfelldari en þeir sem fyrir voru erum við samt sem áður að tala um gríðarlegar fjárhæðir. 47 milljarðar kr. jafngilda heildarútgjöldum ríkisins til mennta- og menningarmála í heilt ár. En sé það rétt að þessi samningur sé 10 sinnum hagstæðari en hinir fyrri hlýtur maður að spyrja sig: Hvað segir sú staðreynd um framgöngu núverandi ríkisstjórnar á fyrri stigum þessa máls? Að mínu mati rammar hún inn og staðfestir alvarleg mistök og vanrækslu ríkisstjórnarinnar í hagsmunagæslu sinni fyrir íslensku þjóðina.

Ég hef í tvígang á Alþingi lagt fram tillögu ásamt félögum mínum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins um að embættisfærslur, ákvarðanir og samskipti íslenskra stjórnvalda við bresk og hollensk stjórnvöld verði rannsökuð með sambærilegum hætti og ráðist var í af hálfu rannsóknarnefndar Alþingis. Því miður hafa þær tillögur aldrei náð lengra en inn í hv. allsherjarnefnd og hæstv. utanríkisráðherra hefur ásamt öðrum ráðherrum í hæstv. ríkisstjórn (Utanrrh.: Ég gerði … fyrir Bretana …) beitt sér fyrir því að þessi rannsókn fari ekki fram, einhverra hluta vegna. (Utanrrh.: Ég … klár. …)

Það er óumdeilt að Icesave-málið varðar einhverja mestu þjóðarhagsmuni sem stjórnvöld hér á landi hafa þurft að takast á við. Það mál er saga mikilla mistaka og varðar mikla hagsmuni. Margar af þessum embættisfærslum og ákvörðunum sem teknar hafa verið af hálfu íslenskra stjórnvalda eru þess eðlis að það er nauðsynlegt að rannsaka þær. Í þeirri tillögu sem ég minntist á er tekið fram að helstu ástæður þess að við þurfum að rannsaka forsögu málsins séu:

1. að núverandi ríkisstjórn hafi gengið fram á fyrri stigum málsins með þeim hætti að framganga hennar hafi í fyrsta lagi strítt mjög freklega gegn hagsmunum íslenska ríkisins,

2. að hún hafi farið út fyrir það samningsumboð sem Alþingi veitti henni með þingsályktunartillögu hinn 5. desember 2008,

3. að hún hafi fallið frá lagalegum rétti íslenska ríkisins gagnvart viðsemjendum sínum,

4. að hún hafi undirritað samninga þrátt fyrir að rannsóknarnefnd Alþingis hafi komist að þeirri niðurstöðu að engin lagaleg skylda hvíldi á íslenska ríkinu að takast á herðar þær skuldbindingar sem hæstv. ráðherrar undirrituðu engu að síður,

5. að þrátt fyrir þetta hafi ríkisstjórn Íslands fallist á kröfur breskra og hollenskra stjórnvalda í Icesave-málinu,

6. að ríkisstjórnin eða fulltrúar hennar hafi undirritað lánasamninga þrátt fyrir að fyrir liggi opinberar yfirlýsingar sem benda til þess að ríkisstjórn Íslands og ráðherrar hafi haft vitneskju um það á þeim tíma sem samningarnir voru undirritaðir að slíkar ákvarðanir nytu ekki stuðnings meiri hluta alþingismanna. Fyrir því eru til opinberar yfirlýsingar, m.a. frá hv. þm. Lilju Mósesdóttur sem lýsti því opinberlega yfir í fjölmiðlum að hún og fleiri hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefðu lýst því yfir að þau væru því mótfallin að hæstv. fjármálaráðherra undirritaði samninga við Breta og Hollendinga en hann hafi samt gert það.

7. Auðvitað þarf að taka til athugunar í þessari rannsókn með hvaða hætti hæstv. ríkisstjórn kom fram gagnvart þinginu. Þar er nærtækast að rifja það upp þegar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson spurði hæstv. fjármálaráðherra hinn 3. júní 2009 hvort til stæði að undirrita þessa lánasamninga sem hér hafa verið nefndir. Hæstv. ráðherra svaraði því neitandi (Utanrrh.: Af hverju var …?) en síðan lá undirskriftin fyrir tveim dögum síðar. (Utanrrh.: Af hverju spurðuð þið ekki …?) Það er auðvitað til merkis um það að hæstv. ráðherra hafi sagt þinginu ósatt.

Allt bendir þetta auðvitað til þess að núverandi hæstv. ríkisstjórn og þeir sem ábyrgð bera á embættisfærslum hennar hafi í fyrsta lagi gerst berir að mistökum, hugsanlega lögbrotum, og a.m.k. vanrækslu í hagsmunagæslu sinni fyrir hönd íslensku þjóðarinnar.

Ég hef kallað eftir því að þetta mál verði rannsakað og skil ekki af hverju hæstv. ráðherrar fallast ekki á að þessi rannsókn fari fram. Það er nú þegar búið að rannsaka þann hluta Icesave-málsins sem átti sér stað fram að hruni en þeir vilja ekki heyra á það minnst að farið sé yfir þeirra eigin embættisfærslur um það sem gerðist eftir hrun. Ég hef aldrei skilið neitt í því af hverju fjölmiðlar þessa lands spyrja ekki hæstv. ráðherra af hverju þeir séu mótfallnir því að rannsóknin fari fram og það sé kannað með hvaða hætti þeir hafi gengið fram í þessu máli. Ég hef spurt að því í þjóðþinginu en aldrei fengið nein svör, en það er kominn tími til þess að hæstv. ráðherrar upplýsi um það hvers vegna þeir vilja ekki að embættisfærslur þeirra (Gripið fram í.) verði teknar til rannsóknar. (Utanrrh.: Þú mátt alveg rannsaka mig í tætlur.) Kannski er það vegna þess að einhverjir hæstv. ráðherranna óttast að ákvarðanir þeirra og samskipti við bresk og hollensk stjórnvöld þoli ekki dagsins ljós. (Utanrrh.: Ég bjargaði nú … úr Sjálfstæðisflokknum í þessu máli þegar þið sömduð af ykkur við Hollendingana og …)

(Forseti (RR): Ég bið hæstv. ráðherra og hv. þingmenn að stunda ekki samtöl í salnum. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur orðið.)

Það er eins og að hæstv. fjármálaráðherra sem ekki er hér staddur óttist að slík rannsókn leiði til þess að hann muni fara sömu leið og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir Haarde, sem hefur nú verið leiddur fyrir landsdóm fyrir minni sakir, tel ég, en þær sem núverandi ríkisstjórn hefur orðið uppvís að í embættisfærslu sinni í Icesave-málinu öllu. Þessa hluti þarf auðvitað að rannsaka og gera upp og það verður einhvern tímann gert. Það hafa verið stigin spor sem ekki mun fenna í í náinni framtíð og ég er ekki viss um að allt það sem gert hefur verið í þessu hörmulega máli þoli dagsins ljós.

Ég vildi koma þessu að í ræðu minni og tel mikilvægt að við (Utanrrh.: Góð ræða.) tökum efnislega umræðu um embættisfærslur hæstv. utanríkisráðherra sem getur ekki stillt sig um að grípa stöðugt fram í (Utanrrh.: Ég þarf …) undir ræðu minni. Það ber þess merki að hæstv. ráðherra sé órótt undir þessum lestri og skil ég það vel. (Utanrrh.: Ertu að …?) Ég skil það vel í ljósi framgöngu hans í málinu þó að hann sé kannski ekki aðalleikarinn (Gripið fram í.) í sögu þessa máls.

Gott og vel, nú liggur þessi samningur fyrir og það stendur upp á hv. þingmenn að taka afstöðu til þess hvort þeir hyggist samþykkja hann eða ekki. Eins og ég fór yfir áðan er óumdeilt að þessi samningur er hagfelldari en hinir fyrri. Það breytir því hins vegar ekki að þeir sem hyggjast styðja þetta frumvarp eða eru að velta fyrir sér hvaða afstöðu þeir eigi að taka til þess þurfa að velta því fyrir sér hvort þeir treysti sér yfir háan og þykkan þröskuld sem er í þessu máli. Hann er sá að eftir sem áður hvílir engin lagaskylda á íslenskum skattgreiðendum til að taka á sig skuldir einkafyrirtækis. Það er lykilspurningin í málinu öllu, hvort sem þessir samningar eru betri eða verri en hinir fyrri: Hvers vegna ættu íslenskir skattgreiðendur að taka á sig þessar skuldbindingar þegar engar lagaskyldur kveða á um að þeim beri að gera það?

Ég sagði við atkvæðagreiðslu við 2. umr. þessa máls að ég mundi upplýsa um afstöðu mína við lokaafgreiðslu þess sem ég geri ráð fyrir að fari fram á morgun og ég mun standa við þá fyrirætlan mína.