139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[00:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það kom margt fram í ræðunni sem við þekkjum og vitum en verður aldrei of oft sagt, þar á meðal að Íslendingum ber að sjálfsögðu engin skylda til að taka á sig þær byrðar sem þarna er um að ræða. Það er almennt viðurkennt að ríkisábyrgð er ekki á svona skuldum.

Við vitum hins vegar að ríkin tvö, Bretar og Hollendingar, hafa beitt sér mjög harkalega gagnvart Íslendingum í gegnum Evrópusambandið og Evrópusambandið hefur ekki látið sitt eftir liggja í að kúga okkur til að taka á okkur þessar byrðar. Mig langar að spyrja hv. þingmann um þá hættu sem gjarnan er talað um að verði ef við greiðum þetta ekki og ef við förum með málið fyrir dóm; telur hann að það sé minni áhætta að greiða (Forseti hringir.) þessa reikninga með óútfylltum tékka, láta Breta og Hollendinga hafa tékkheftið, en að fara með málið fyrir dóm (Forseti hringir.) þar sem allar líkur eru á að við munum standa (Forseti hringir.) uppi sem sterk og sameinuð þjóð?