139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[00:25]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að ég tel að lagaleg staða Íslands í deilunni við Breta og Hollendinga sé sterk og hafi alltaf verið það. Ég held að samninganefnd undir forustu Lees Buchheits hafi nýtt sér þá stöðu til að ná fram betri samningum heldur en fyrri erindrekar ríkisstjórnarinnar, Indriði H. Þorláksson og Svavar Gestsson, náðu fram í samningaviðræðum sínum við Breta og Hollendinga.

Ég get hins vegar ekki, eins og ég hef sagt áður, lýst því eða kveðið upp úr um það, fari málið fyrir dómstóla með einhverjum hætti, hver niðurstaðan verður. Ég er ekki í þeirri stöðu að geta metið það.

Hv. þingmaður er greinilega mjög spenntur fyrir því að heyra hvernig ég ætla að greiða atkvæði í málinu. Hann verður bara að lifa í þeirri spennu þar til á morgun þegar við greiðum atkvæði. Eins og ég sagði áðan mun afstaða mín til málsins koma í ljós.