139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[00:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýrt svar. Ég taldi eftir fyrri ræðu hans að hann væri að leggja það til, ef tillaga hans yrði samþykkt, að aðeins yrði rannsakað eftir að samningurinn kom. Ég tel að ef menn ætla að rannsaka þetta þurfi að skoða allt saman og m.a. hvað var gert í umboði hverra. Forustumenn Sjálfstæðisflokksins settu á sínum tíma stafi sína undir samkomulag við Hollendinga og ætluðu að ríkisstjórn forspurðri að gera slíkt hið sama gagnvart Bretum. Ég sat í þeirri ríkisstjórn og hafði ekki hugmynd um það. (Gripið fram í: Hvernig veistu hvað …?) Rannsaka þarf þá hvort það hafi verið gert í einhverju sérstöku umboði Sjálfstæðisflokksins. Ég held því ekki fram að hv. þingmaður hafi veitt umboð sitt til þess. Ég segi einungis að þær ásakanir sem komu fram hjá hv. þingmanni kynnu að eiga við um fleiri. Það kynnu að hafa verið fleiri sem tóku ákvörðun án þess að hafa til þess nokkuð umboð sem leiddi til samkomulaga sem menn (Forseti hringir.) rituðu stafi sína undir og voru miklu verri en Icesave-samningarnir og náttúrlega miklu verri en sá sem við ræðum núna.