139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[01:00]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Tók virðulegur forseti eftir því sem kom fram í máli hv. þingmanns, að þetta stóra mál hefði ekki verið reifað almennilega í fjárlaganefndinni? Hlýtur það ekki að vera áhyggjuefni fyrir Alþingi að svo stórt mál sé unnið þannig? Ég skora á virðulegan forseta að láta til sín taka í þessu máli.

Annað sem veldur mér töluverðum áhyggjum og tengist reyndar þessu er óvissan um það hvenær þrotabú bankans getur byrjað að greiða út. Það er algert grundvallaratriði vegna þess að langmesta efnahagslega tjónið af þessum samningum eða tilboði, ég tala nú ekki um fyrri samningum, liggur í hugsanlegum vaxtagreiðslum. Meðan þrotabú bankans er ekki byrjað að greiða út og borga niður skuldir þá hrúgast upp vextir sem alltaf munu lenda á íslenskum skattgreiðendum. Það er því algert grundvallaratriði hvenær bankinn getur byrjað að greiða út. Hefur fjárlaganefnd fengið svör við því hvaða dag bankinn treystir sér til að byrja að borga út? Þetta er grundvallaratriði. Það munar þar milljörðum á milljarða ofan eftir því sem tíminn líður. Ef tilfellið er að fjárlaganefndin hafi ekki fengið svar við því er það enn ein sönnun þess að menn fari of geyst, þeir hafi ekki fengið allar þær upplýsingar sem þyrfti að hafa til að forsvaranlegt sé að klára málið. Við skulum muna að fram að þessu hefur tíminn yfirleitt unnið með okkur. Ef þetta er tilfellið og ég tala ekki um ef mikil óvissa er um stöðu bankanna og það er rétt sem hv. þingmaður segir, að hæstv. viðskiptaráðherra hafi haft efasemdir um eiginfjárstöðu þeirra, er þá ekki eðlileg krafa að hæstv. viðskiptaráðherra fylgist a.m.k. með þessum umræðum og svari fyrir (Forseti hringir.) þetta stóra mál? Ef við fáum ekki svör við því er ákaflega óábyrgt að klára málið í kvöld.