139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[01:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Icesave-málið kemur hingað enn og aftur. Eins og ég hef margsagt í dag virðist þetta elta okkur eins og ég veit ekki hvað, ég veit ekki hvernig ég á að orða það, frú forseti. Það er svolítið grátlegt að þurfa að eyða miklum tíma Alþingis í mál sem íslensku þjóðinni kemur í sjálfu sér ekkert við. Þetta er einkamál þeirra sem lögðu inn á þessa Icesave-reikninga, einkamál þeirra sem ráku þetta fyrirtæki, Landsbankann, á þessum tíma því að þetta eru einkaskuldir sem virðist vera mikill áhugi fyrir núna hjá ákveðnum hópi þingmanna að yfirfæra á þjóðina, yfirfæra á Íslendinga sem ekkert hafa með það að gera hvernig þessi banki var rekinn og hvernig þessi meinta skuld varð til. Það sem verra er er að það er sífellt að renna betur upp fyrir manni að stjórnvöld hafa ekki haldið málstað Íslendinga nægilega vel á lofti, ekki síst í ljósi þess að við eigum skýlausa kröfu á Breta — ég nefni ekki Hollendinga því að þeir beittu okkur ekki hryðjuverkalögum — því að Bretar skulda Íslendingum háar fjárhæðir vegna beitingar hryðjuverkalaganna. Við getum hvorki né eigum að fyrirgefa eða gleyma fyrr en það hefur verið bætt ásættanlega fyrir Ísland og Íslendinga.

Þetta mál tengist mjög sterkt samskiptum okkar við önnur lönd eins og hefur líka komið fram. Við sem höfum rýnt þessi gögn, bæði opinber, leynimöppur og annað, sjáum svo ekki verður um villst að erlend ríki hafa beitt okkur miklum þrýstingi og í raun ofbeldi til að við tækjum á okkur þessar skuldir.

Nú kann að vera að á bak við ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna og ráðherranna um að keyra þetta mál með þessum hætti í gegn núna í þriðju atrennu búi eitthvað sem við þekkjum ekki, ég veit það ekki. Við munum sjálfsagt ekki komast að því fyrr en sú rannsókn sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson nefndi hér fyrr í kvöld verður afstaðin. Það er mjög mikilvægt að hún fari af stað.

Það mál sem við ræðum hér snýst enn um það sama, um það hvort við ætlum að samþykkja að einkaskuldir verði ríkisvæddar og lagðar þannig á Íslendinga. Það er ekkert lagalegt sem segir að svo eigi að vera, heldur er þetta þá einhvers konar pólitísk nálgun eða lausn sem einhverjir vilja fara — og til hvers? Væntanlega til þess að búa til eitthvert gott andrúmsloft einhvers staðar úti í heimi. Það er mikið af orðunum „ef“, „einhvers staðar“ og „eitthvað“ í málinu því að við vitum óskaplega lítið um hver áhrifin verða.

Það er búið að vera ágætisskálkaskjól fyrir ríkisstjórn sem litlu kemur í framkvæmd að hafa þetta mál uppi á borðinu til að geta sagt að allt mögulegt sé því að kenna. Það verður athyglisvert að sjá hvort líf Íslendinga muni breytast svo gríðarlega þegar búið verður að þröngva þessu í gegnum þingið. Ef þetta verður samþykkt á endanum sem ég að sjálfsögðu vona að þjóðin fái tækifæri til að segja álit sitt á verður forvitnilegt að sjá hvort einhverjar af þessum hrakspám rætist og hvort slík veðrabrigði verði í íslenskum stjórnmálum og á efnahagslífi Íslands að hér muni allt verða grænt og gott fram undan og það vori mjög snemma. Slíkur er málflutningurinn, hjá stjórnarliðum sérstaklega.

Stjórnarliðar virðast vera búnir að kasta því algjörlega á bak við sig að hér er að sjálfsögðu um prinsippmál að ræða. Jú, það vildu allir reyna að ná betri samningi og um það deilir enginn að þessi samningur er miklu betri en sá óskapnaður sem fjármálaráðherra mælti fyrir í fyrsta skipti, svokallaður Svavarssamningur. Hann skánaði í annað skipti og hann batnaði til muna nú í þetta þriðja skipti. En hvað gerist ef það er beðið aðeins lengur? Hvað gerist ef við bíðum eftir sumrinu, ef við bíðum eftir því að það skýrist betur hvað gerist í þrotabúinu? Munu neyðarlögin standa af sér þau dómsmál sem þegar eru á ferðinni? Allt eru þetta hlutir sem við eigum að vera óhrædd við að ræða og bíða eftir. Það hefur sýnt sig að biðin í þessu er búin að spara þeim sem munu borga þetta mikla fjármuni.

Eftir stendur spurningin: Er þessi tékki ásættanlegur til að leggja hann óútfylltan á þjóðina? Er betra að bíða? Er betra að láta á það reyna hvort einhverjir fari í mál við okkur út af þessu? Mín skoðun er sú að þessi samningur sé engan veginn nógu góður til að hægt sé að samþykkja hann. Það er ekki föst tala í honum. Við vitum ekkert hvernig hann endar. Ég ætla ekki að fullyrða að ég sem hér stend í þessum ræðustól hefði ekki verið tilbúinn til að samþykkja einhvern samning þar sem væri föst tala og ljóst hvað við þyrftum að greiða. Ef við gætum t.d. séð fram á að þrotabúið dygði fyrir þeim samningi gæti verið ásættanlegt að liðka fyrir niðurstöðu. En það er bara ekki þannig. Það er algjör óvissa um þennan samning. Það er vissulega líka óvissa um dómsmál en líkurnar á því að Bretar og Hollendingar fari í mál við Íslendinga eru sáralitlar því að þeir hafa ekki hagsmuni af dómsmáli. Það er klárlega pólitík í því að fara í mál við Íslendinga út af þessu. Það er einhver alþjóðasamfélagspólitík að lítil þjóð geti ekki sagt stórþjóðum fyrir verkum. Gleymum því ekki að þegar þjóðin felldi síðasta Icesave-samning vakti það heimsathygli. Það vakti athygli á því að Íslendingar, þessi 300 þúsund manna þjóð, stóðu uppi í hárinu á risaþjóðum sem vildu kúga hana og beygja. Það lagðist allt með Íslendingum.

Það er enn þá horft til Íslands. Það er enn þá horft til þess hvernig við afgreiðum þetta mál. Trúum við því virkilega að með því að auka skuldir þjóðarbúsins muni erlendir aðilar horfa til þess og segja: Já, þarna er traustur aðili sem við ætlum að lána fjármuni okkar? En bíddu nú við, hvað skuldar hann í heild? Hverjar eru heildarskuldir þessarar þjóðar? Getur hún staðið undir þeim skuldum? Þetta eru hlutir sem við hljótum að velta fyrir okkur.

Ég var mjög hugsi þegar ég heyrði andsvar hæstv. utanríkisráðherra áðan sem hefur töluvert setið í þessari umræðu og verið vakinn og sofinn yfir því að koma hér upp og verja málstaðinn, enda sérstakur umboðsmaður Evrópusambandsins á Íslandi. Ég las frétt áðan á netmiðli þar sem talað var um að fundist hefði flækingsköttur í Downing-stræti 10. Við höfum stundum verið í dýrafræðinni á Alþingi og þá varð mér hugsað til þess hvort þessi frétt væri gömul, hvort hún væri eins og hálfs árs eða tveggja ára, hvort flækingsköttur hefði verið í Downing-stræti 10 að tala við Gordon Brown til að véla um það hvernig væri best að fá Íslendinga til að greiða þessar skuldir. Það mundi liðka fyrir góðum anda hjá Bretum þegar Íslendingar þurfa á því að halda við inngöngu í Evrópusambandið. Getur verið að þessi flækingskisa hafi verið íslensk? Ég velti því fyrir mér.

Frú forseti. Þetta er ekkert gamanmál. Þetta er stóralvarlegt mál og í þessari næstsíðustu ræðu minni í þessu Icesave-máli hef ég nefnt þá þætti sem ég tel að séu varhugaverðir, þ.e. að samningurinn er einfaldlega ekki nógu góður, það er mikil óvissa í honum og okkur ber ekki skylda til að greiða hann. Það er hins vegar mikilvægt að allir þingmenn taki sig saman í atkvæðagreiðslu á morgun um að veita íslensku þjóðinni þann möguleika að segja álit sitt á samningnum. Eins og fram hefur komið erum við ekki að tala um eitthvert mál sem er hægt að líkja saman við einhver önnur mál sem við erum að fjalla um í þinginu. Þjóðin er einu sinni búin að fá þetta í hendurnar og hún hafnaði því. Þjóðin er ákaflega vel upplýst um það um hvað þessi samningur og þetta mál snýst, líklega betur upplýst en um mörg önnur mál sem við erum að tala um í þinginu.

Áhættan af þessum samningi er öll hjá okkur, hún er öll hjá þjóðinni. Af hverju leyfum við ekki íslenskri þjóð að ákveða hvort hún vill taka þá áhættu á sig? Hún mun þá meta hvort hún vill taka áhættuna af því að láta Breta og Hollendinga hafa tékkheftið eða hvort hún er tilbúin til að taka áhættuna af því að Bretar og Hollendingar fari í mál við okkur. Ég fullyrði að þeir muni ekki gera það því að hagsmunir þeirra liggja ekki í því.

Því er flestallt og í rauninni allt sem mælir með því að við förum þessa leið á morgun, samþykkjum að mál þetta fari í þjóðaratkvæði enda eru nú þegar nærri 28 þúsund Íslendingar búnir að skrifa undir áskorun um að svo verði. Það er ekki hægt að hunsa það að mínu viti. Það er líka meiri virðing yfir því ef Alþingi tekur þessa ákvörðun, ef Alþingi samþykkir að veita þjóðinni þetta í þessu máli sem hún hefur áður tjáð sig um í stað þess að treysta á og setja í raun þá pressu á forseta Íslands að hann grípi aftur inn í. Sem betur fer hefur forsetinn sýnt að hann hefur kjark til þess þegar hagsmunir þjóðarinnar eru miklir, og þeir eru svo sannarlega miklir í þessu máli.

Það má líka færa rök fyrir því að þetta sé spurning um það hvort þjóðin og við séum sjálfstæð að því leytinu til. Tökum við ákvarðanir okkar hér byggðar á því mati og þeirri reisn sem á að fylgja Alþingi Íslendinga eða munum við lyppast niður út af ósanngjörnum kröfum erlendra aðila sem upp á sitt eindæmi ákváðu að búa til skuld og setja fé í að greiða innstæður sem þeim bar ekki skylda til að greiða? Það er svo merkilegt að breskir þingmenn sem ég átti kost á að ræða við sögðu hreinlega margir hverjir, ekki allir vitanlega, að Íslendingum ætti ekki að detta í hug að taka á sig þessar byrðar því að Bretum sem lögðu inn á þessa reikninga átti að vera ljóst að svona mikilli ávöxtun fylgdi mikil áhætta. Því væri þeim sveitarfélögum, góðgerðasamtökum, einstaklingum og fyrirtækjum engin vorkunn þótt þau hefðu tapað þessu fé, þetta hefðu verið áhættufjárfestingar. Það var áhætta að leggja peninga inn á þessa reikninga. Hvers vegna í ósköpunum á íslensk þjóð að bera þá áhættu, bera kostnaðinn af gambli einhverra útlendinga? Þetta er algjörlega óskiljanlegt — nema þegar við setjum þetta í hið pólitíska samhengi.

Pólitíkin í þessu er grunnurinn að því að verið er að demba þessu á framtíðina, á ungmennin sem munu þurfa að greiða fyrir þessa skuld verði hún sett á Ísland. Við munum sjá þetta mögulega í fjárlögum næstu ára sem minnisvarða um hluti þar sem Alþingi brást ef þetta fer á versta veg. Það er mjög slæmt ef sú verður niðurstaðan. Ég held að það sé mikilvægt, frú forseti, að þjóðin fái að segja álit sitt á þessu máli. Við sem teljum þetta klárlega óásættanlegt með þeim hætti sem þetta liggur hér fyrir verðum að sjálfsögðu að hlíta þeirri niðurstöðu sem fæst. Við eigum engra annarra kosta völ en við hljótum a.m.k. að berjast fyrir því að hinn almenni borgari Íslands fái að segja álit sitt á þessu þar sem þegar er búið að fela honum það hlutverk einu sinni. Hvers vegna á hann ekki að fá að klára þetta mál sem hann vildi svo sannarlega taka að sér að afgreiða? 98% þeirra sem mættu á kjörstað höfnuðu fyrri samningi, 2% samþykktu. Hvað segir það okkur, frú forseti? Það segir okkur að við verðum að virða þann vilja, við verðum að virða þá sem tóku þátt í þeirri kosningu og vísa þessu (Forseti hringir.) til þjóðarinnar.