139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[01:20]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða ræðu. En getur hv. þingmaður ekki tekið undir það með mér að það sé algjörlega óásættanlegt að til þess sé ætlast af okkur að við klárum umræðu um þetta mál með þessum hætti? Þrátt fyrir að hv. þingmaður hafi gert sitt besta til að útskýra málið á fyrri stigum og flutt um það vel á þriðja hundrað ræður og önnur innslög virðist sem sá góði málflutningur allur, og veitti ekkert af öllum þessum ræðum, hafi gleymst hjá a.m.k. stjórnarliðinu og hugsanlega fleirum. Svo virðist sem það þurfi að rifja upp grundvallarstaðreyndir þessa máls aftur og aftur vegna þess að enn á ný sjáum við menn halda hér fram rökum sem löngu er búið að sanna að fá ekki staðist.

Hitt sem ég er að velta fyrir mér, af því að hv. þingmaður nefndi breska þingmenn sem hefðu bent Íslendingum á að það væri fráleitt að þeir færu að greiða þessar kröfur, er að þarna kunna að hafa verið nokkrir þingmenn úr Verkamannaflokknum. Þeir fundust nokkrir sem voru á okkar bandi, man ég, eða félagar okkar í Frjálslyndum demókrötum sem hafa verið miklir stuðningsmenn Íslands í þessu máli. Hugsanlega eru þarna nokkrir prinsippíhaldsmenn, kannski í líkingu við hv. þm. Birgi Ármannsson sem situr hér í salnum, prinsippmenn sem telja að lög skuli standa og að rétt sé rétt. Í þessu samhengi vil ég þó minna á að þessir bresku innstæðueigendur sem réttilega var bent á að við ættum ekki að ábyrgjast eru í ótrúlega góðri stöðu miðað við það sem menn eiga yfirleitt að venjast þegar þeir lenda í því að fyrirtæki sem þeir lána peninga verður gjaldþrota. Þeir hafa fengið allt sitt til baka og breska og hollenska ríkið munu fá allt sitt til baka sama hvað líður þessum Icesave-samningum, (Forseti hringir.) a.m.k. höfuðstólinn úr þrotabúi bankans. Tjónið er ekkert þar og ekkert fyrir þá að kvarta undan.