139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[01:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni kærlega fyrir ræðuna og innlegg hans. Ég gleðst yfir því að sjálfstæðismenn taka þátt í umræðunni því ákveðin stefnubreyting var hjá flokknum í heild sinni þegar þetta mál var hér í 2. umr.

Þingmaðurinn fór yfir það í ræðu sinni að þetta væri betri samningur og lægri vextir. Það er þessi meðvirkni sem virðist vera hjá ríkisstjórnarflokkunum með þessum samningi að hann sé langtum, langtum betri og þess vegna beri (Gripið fram í.) að samþykkja hann.

Hv. þingmaður talaði um þetta vaxtaákvæði. Það hefur einmitt verið notað sem rök að við ættum jafnvel að fara mjög hljóðlega með það hvað samninganefndin náði hagstæðum vöxtum úti vegna þess að verið væri að lána ríkjum Evrópusambandsins á langtum hærri vöxtum. Þess vegna gætu jafnvel Bretar og Hollendingar hrokkið við og Írar, Portúgalar, Grikkir og allir þeir aðilar og farið að krefjast sömu vaxta og Íslendingum var boðið á þetta svokallaða lán.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann deili ekki þeirri skoðun minni: Er ekki í raun alveg sama hvaða vaxtaprósenta er á þessum samningi, því að um leið og krafan er ógild samkvæmt lögum, ekki er lagastoð fyrir því að Íslendingar eigi að borga þessar upphæðir, þá eru vextir jafnframt ógildir í leiðinni? Er þetta ekki bara blekking sem verið er að beita til að fá okkur frekar til að gangast undir þessar ólögmætu kröfur með því að lækka vaxtaprósentuna með þessum hætti? Það getur ekki verið að borga eigi vexti af ólögmætri kröfu, er það? Ég spyr hv. þm. Birgi Ármannsson að því.