139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[01:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nefnilega mergurinn málsins. Hér er verið að leggja fram frumvarp og umræður eru langt fram á nótt um mál sem er raunverulega ekki til. Grunnurinn í þessu máli gleymist alltaf. Hér er verið að leggja til að ríkisvæða einkaskuldir og grunnurinn er ekki til staðar á þann hátt að þetta sé komið í frumvarpsformi frá ríkisstjórninni nema þetta sé það gjald sem ríkisstjórnin ætlar að leggja á skattgreiðendur á Íslandi vegna einhvers ímyndaðs samviskubits yfir einhverjum aðilum sem fóru með heilt land á hausinn og heilt bankakerfi í leiðinni vegna þess að þeir spiluðu óvarlega. Og raunverulega er það að koma í ljós nú í seinni tíð að meira að segja var verið að fremja lögbrot í skjóli nætur. Þetta er því ólögvarin krafa og verið er (Forseti hringir.) að setja á okkur ólöglega kröfu. Gleymum ekki um hvað málið snýst (Forseti hringir.) í grunninn.