139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[01:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að gæta allrar sanngirni mundi ég segja að það sé hugsanlegt, ég segi hugsanlegt, að þingmenn eða aðrir geti komist að þeirri niðurstöðu að eðlilegt sé að leysa milliríkjadeilu með einhvers konar fjárútlátum. Það er hugsanlegt. Ég viðurkenni að slíkt hagsmunamat er hugsanlegt.

Ég bendi hins vegar á að þá verða menn jafnframt að horfast í augu við að til að gera það þurfa menn bæði að hafa fjármuni til þess og þeir þurfa þá um leið að vera tilbúnir að taka áhættuna sem fylgir því ef hlutirnir fara ekki eins vel og kannski bestu spár gera ráð fyrir. Menn verða þá að ganga til þess (Forseti hringir.) með opnum augum, að þeir eru bæði að samþykkja fjárskuldbindingar sem ekki er lagaleg stoð fyrir og að þeir eru að taka áhættu. Aðrir þættir sem varða samskipti við (Forseti hringir.) önnur ríki geta vegið þarna á móti en þarna liggur matið, finnst mér.