139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[02:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála því mati hv. þingmanns að áhugi á málinu sé áfram mikill. Hugsanlega af illri nauðsyn. Eflaust vildu margir vera lausir við þetta mál, en almenningur held ég að geri sér grein fyrir því hversu stórt atriði þetta er og að þegar upp er staðið lendir reikningurinn hjá almenningi. Það er í tengslum við það sem ég mundi vilja spyrja hv. þingmann hvort hann geti ekki tekið undir það með mér að ekki aðeins sé hér um háar upphæðir að ræða heldur verðum við að gera greinarmun á því að það er ekki sama 1 milljarður, tökum hann sem dæmi, sem varið er í að halda uppi heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, til að taka dæmi, og 1 milljarður sem er borgaður út úr hagkerfinu og ekkert kemur í staðinn. Sá milljarður sem fer í heilbrigðisþjónustuna fer í að greiða laun og launþeginn borgar af þeim skatta og kaupir vörur og þjónustu af öðrum svoleiðis að tjónið er fyrir vikið svo miklu meira en upphæðin ein (Forseti hringir.) og sér segir til um vegna þess að þetta fer út úr hagkerfinu og ekkert kemur í staðinn.