139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[02:07]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir hans ágætu ræðu áðan sem var yfirveguð, hófstillt og málefnaleg að öllu leyti. Að mínu mati er ákveðinn eðlismunur á þeim málflutningi sem hér hefur átt sér stað af hálfu stjórnarandstöðunnar, annars vegar fyrst og fremst þingmanna Sjálfstæðisflokksins og hins vegar þingmanna Framsóknar og Hreyfingar. Úr tveimur síðastnefndu flokkunum virðast þingmenn almennt vera á móti málinu sem slíku, hvort sem á að semja um það eða leysa það með öðrum hætti, vilja helst ekki vita af því, burt séð frá því hvaða samningur er á borðinu. Mér finnst þeir þar af leiðandi ekki taka beina afstöðu til samnings heldur þess að losna við málið. Það horfir aðeins öðruvísi við í málflutningi sjálfstæðismanna að mínu mati, m.a. í málflutningi og ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar hér áðan, þar sem rætt er um málið út frá þeim forsendum sem við erum að gera hér í dag, þ.e. út af þeim samningsdrögum sem liggja fyrir og því frumvarpi sem við erum að afgreiða.

Það er samt ekki alveg hægt að henda reiður á því hvort þingmaðurinn styður það samkomulag sem hér liggur fyrir eða ekki og þá hvort hann er þeirrar skoðunar að það sé réttara að leysa þetta tiltekna mál með samningum eins og alla tíð hefur verið lagt upp með, alveg frá haustinu 2008, m.a. í þeirri ríkisstjórn sem hv. þingmaður studdi á þeim tíma, eða ekki. Frá fyrsta degi var vilji til að leysa þetta mál með samningum. Ég greip bara með mér úr gögnum mínum á borðinu þrjú skjöl frá þeim tíma, október og nóvember á árinu 2008, sem vísa öll til þess. Er þingmaðurinn þeirrar skoðunar að það eigi að leysa þetta mál með samningum eða vill hann vísa þessu í dómstól til (Forseti hringir.) úrlausnar?