139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[02:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég studdi það í desember 2008 að farið væri út í samningaviðræður með það fyrir augum að reyna að finna lausn á þeim deilum sem uppi voru við Breta og Hollendinga með einhvers konar samkomulagi. Ég greiddi atkvæði með þingsályktunartillögu sem fór til utanríkismálanefndar og tók þar ákveðnum breytingum, m.a. með því að það var hert á því með skýrum hætti að í þeirri ákvörðun að fara í samningaviðræður fælist ekki sjálfkrafa stuðningur við samning, að Alþingi áskildi sér rétt til að taka alveg sjálfstætt afstöðu til þess sem út úr slíku samkomulagi kæmi.

Ég játa það að eftir því sem málinu hefur undið fram hefur áhugi minn á því að leysa það með samningum minnkað og áhugi minn á því að fara með það fyrir dómstóla aukist. (VigH: Heyr, heyr.) Það byggi ég fyrst og fremst á því að við vitum miklu meira um málið í dag, þekkjum miklu fleiri sjónarmið í því og höfum skoðað það svo miklu betur en við höfðum gert fyrir tveimur og hálfu ári. Í mínum huga hefur það skýrst mjög afdráttarlaust að lagaleg skuldbinding er ekki fyrir hendi með þeim hætti sem margir töldu að væri uppi haustið 2008.

Varðandi aðra þætti sem hv. þingmaður nefndi er rétt að þrátt fyrir að lagalega skuldbindingin sé ekki fyrir hendi kunna að vera hagsmunarök sem vega á móti (Forseti hringir.) og þar geta menn í sínu mati komist að mismunandi niðurstöðu.