139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[02:11]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er reyndar rétt að taka fram að í þeirri þingsályktunartillögu sem samþykkt var í desember 2008 var ekki gert ráð fyrir að Alþingi samþykkti þann samning sem ætti að ná fram. Hv. þm. Pétur H. Blöndal flutti sérstaka breytingartillögu við þingsályktunartillöguna um að Alþingi þyrfti að samþykkja þann samning sem þá hugsanlega næðist. Hún var felld. Það voru stjórnvöld sem áttu að ná fram þeim samningi sem átti síðan að kynna á Alþingi og afla heimilda hjá Alþingi til fjárútláta sem mundu leiða af honum. Þetta sést í gögnum þingsins og ræðum þingmanna hvað það varðar og atkvæðagreiðslum um málið.

Kannski geng ég of hart að hv. þingmanni en mér finnst samt óljóst hvaða afstöðu hann hefur í málinu. Nú erum við komin á þetta stig, til 3. umr., atkvæðagreiðsla líklega á morgun, eða síðar í dag miðað við hvað klukkan er, og mig langar að heyra afstöðu þingmannsins gagnvart þessum samningi. Telur hann (Forseti hringir.) þess virði að leysa málið eins og það lítur út í dag eða telur hann það ekki þess virði?