139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[02:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það lá alltaf fyrir, ég held að öllum hafi verið það ljóst, að hvað sem liði breytingartillögu hv. þm. Péturs Blöndals í desember 2008 þyrfti fjárskuldbinding sem ríkissjóður tækist á hendur alltaf að fara fyrir Alþingi. Í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar sem ég er viss um að hv. þingmaður þekkir og hefur jafnvel í höndunum er sérstakur kafli um að Alþingi áskilji sér rétt til að samþykkja eða hafna slíkum samningi þegar hann komi þar til afgreiðslu með einum eða öðrum hætti. Það stendur skýrt í nefndarálitinu og eins og menn vita þarf fjárskuldbinding af þessu tagi alltaf að koma til þingsins samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár.

Varðandi hins vegar afstöðu mína og það hvernig ég greiði atkvæði minni ég hv. þingmann á að ég sagði ekki já hér við 2. umr. málsins eins og hann man kannski. Af því að tími minn er nú búinn (Forseti hringir.) vildi ég ljúka ræðu minni á því að spyrja hv. þingmann hvort hann viti um afstöðu allra í sínum eigin flokki. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.)